Sunnudagur, 28. ágúst 2011
Aumingja hjólreiðamaðurinn (ég)
Ég átti erindi á 19. hæðina í Turninum við hliðina á Smáralind í dag. Auðvitað valdi ég að hjóla í þetta fjarlæga bæjarfélag af því að ég vel bíllausan lífsstíl og af því að ég hafði tíma. Það kom svo sem niður á vandvirknislegri hárgreiðslunni því að það rigndi þennan klukkutíma en það verður ekki á allt kosið.
Verra þótti mér að hafa ekki almennilega hjólaleið. Þegar ég hjólaði Fífuhvammsveginn til baka lenti ég í þvílíkum andskotans ógöngum að ég þurfti að rífa hjólið upp fyrir vegrið - og var þá búin að kaupa glös í millitíðinni og setja í körfuna. Þau brotnuðu ekki.
Ein vinkona mín væri vís með að segja mér að ég hefði átt að fara tiltekna hjólastíga þannig að ég ætla strax að svara þeim málsvara andstæðingsins. Ég fór eðlilega leið og það er ekki hægt að ætlast til að fólk sem hjólar einu sinni í Kópavoginn þekki alla hugsanlega stíga á leiðinni. Fólk sem hjólar er heldur ekki alltaf bara að því sér til afþreyingar og dægrastyttingar, stundum á maður einfaldlega erindi milli bæjarhluta og þá vill maður ekki hjóla hálfa leiðina til tunglsins í leiðinni.
Ef ríki kínverski kommúnistinn vill láta gott af sér leiða mætti hann byrja á grunnþjónustu og bíða með allan grefilsins lúxusinn á Grímsstöðum.
Athugasemdir
Duglega þú!
svavs, 29.8.2011 kl. 09:24
Kópavogur - hvers vegna Kópavogur og þá í mekka bílamenningarinnar. Fuss og svei. Hélt að þú þyrftir ekki að fara í K eftir að S24 fluttu.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 29.8.2011 kl. 14:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.