Þriðjudagur, 6. september 2011
Viðskiptahugmynd til 50 ára?
Ég heyrði í útvarpinu nýlega vitnað í Kínverja sem átti að hafa sagt um okkur Íslendinga fyrir fáum árum að við hugsuðum til fárra ára ólíkt þeim sem hugsuðu í áratugum. Mikið til í því, sennilega hugsa ráðamenn í kjörtímabilum og gera í mesta lagi áætlanir til 10 ára sem eru svo teknar upp næst þegar nýr meiri hluti myndast.
Og? sagði útvarpsmaðurinn sem varð fyrir svörum, er ekki gott að hugsa til lengri tíma? Jú, sagði konan sem hringdi, en það er einmitt það sem við virðumst ekki ætla að gera ef við stökkvum á vagninn hans Huongs Nubos. Gulrótin virðist vera milljarðurinn eða milljarðarnir sem er sveiflað fyrir framan nefið á okkur núna.
Mér var líka nýlega sagt frá stórfelldri landasölu í Mýrdalnum (sem svo var fjallað um í DV í gær ef ég man rétt) sem fékk enga umfjöllun að ráði þegar hún varð í upphafi aldarinnar. Og nú eru menn uggandi af því að einhver (já, útlendingur) á heilan dal og getur bannað umferð um hann.
Ég viðurkenni að ég er svolítið skelkuð við tilhugsunina um að (fyrrverandi) alfaraleiðir verði í einkaeigu og þar fyrir utan skil ég ekki þessa viðskiptahugmynd fyrir norðan, lúxussvæði umlukið svæði þar sem grunnþjónustu er ábótavant.
Ætlar viðskiptamaðurinn Huong Nubo að fljúga með alla farþega sína á svæðið og gulltryggja þeim það veður og útsýni sem þeir kaupa trúlega? Ég er ekki svona treg, það vantar sannfæringuna í málflutninginn - hvað hangir á spýtunni? Mér finnst tímabært að við hættum að hugsa í skammtímaeiningum og förum einmitt að hugsa svolítið fram í tímann.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.