Fimmtudagur, 8. september 2011
Íslenskt grænmeti, íslenskir ávextir
Mikið vildi ég að mangó væri ræktað á Íslandi, ræktað við rétt hitastig, geymt við rétt hitastig og flutt um skamman veg áður en það hafnaði í ísskápnum mínum. Eða á borðinu ef ég ætlaði að nota það fljótlega.
Ég kaupi alltaf íslenska kirsuberjatómata eða þá sem heita konfekttómatar nema kílóverðið sé 900 krónur, þá hætti ég við. Mig minnir að uppáhaldsgulræturnar mínar séu frá Fljótshólum, það liggur við að ég þekki þær á svipnum þótt ég muni ekki bæjarnafnið gjörla.
Innflutt grænmeti og innfluttir ávextir eru verri af því að þeir hafa ferðast um langan veg og tapað gæðum á leiðinni. Þar að auki er margt grænmeti og margir ávextir á Íslandi framleitt við kjöraðstæður, hreint loft, hreint vatn, mengunarfrítt. Ég held að ég búi við fæðuöryggi af því að ég bý á Íslandi þar sem rafmagn ólgar og hægt að nota það til framleiðslu á ýmsum mat, lambakjötið spókar sig á hálendinu sumarnæturnar langar, fiskurinn spriklar undan landi og í landi er nægur mannskapur til að töfra fram heilnæman mat úr hráefninu.
Þess vegna held ég að ég skilji ekki verndartolla í landbúnaði. Nú gætu bændabörn, sem ég þekki fá (og alls enga bændur), sagt að ég viti ekkert hvað ég er að segja. Nei, en ég vildi alveg vita út á hvað tollarnir ganga af því að ég get ekki skilið að það þurfi að vernda gæðavöru sem á stutt á markað. Af hverju er ekki íslenskt grænmeti á boðstólum allt árið á samkeppnishæfu verði? Þessi umræða hjálpaði mér ekki að skilja það.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.