Laugardagur, 1. október 2011
,,Leyfðu mér að kyssa yður"
Í gær var dagur þýðenda eins og jafnan 30. september. Bandalag þýðenda og túlka bauð upp á dagskrá um leikritaþýðingar í samvinnu við Þjóðleikhúsið. Hrafnhildur Hagalín, Sigurður Karlsson og Friðrik Erlingsson fluttu erindi og svo var fólki leyft að spjalla við þau á eftir.
Eins og við er að búast lifa frjóar umræður með manni í huganum þótt þeim ljúki í tíma. Þau sóttu öll ýmislegt spaklegt úr eigin reynsluheimi og voru hin áheyrilegustu og allt í einu skaut núna upp í kollinn á mér því sem Sigurður sagði um skilning eða skilningsleysi áhorfenda. Fólk er svo oft hvatt til að bera ekki á borð neitt torskilið, nýstárlegt - eða gamaldags - og þá bregða úrtölumenn fyrir sig hugsuninni: Já, en þetta skilur enginn.
Og Sigurður sagði: Er einhver goðgá þótt fólk læri eitthvað nýtt, t.d. í leikhúsinu? Er ekki allt í lagi að nota orð sem kannski skilst ekki nema af samhenginu og þá hefur fólk stækkað orðaforðann?
Verra er náttúrlega ef fólk sem ætlar að nota orðin (og slá um sig kannski) hefur ekki vald á merkingunni, sbr. leikarann sem sagði: Leyfðu mér að kyssa yður. Gott ef það var ekki Tsjekoff þar sem þéranir eru mikið notaðar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.