Mánudagur, 17. október 2011
Að vinna eða ekki að vinna og verða til gagns
Mér finnst afar fráhrindandi tilhugsun að vera atvinnulaus, öllu heldur kannski aðgerðalaus. Kannski gæti ég hugsað mér að vera í skóla alla ævi og læra alltaf eitthvað nýtt og nýtt; til kokks, viðskiptafræði, köfun, útvegsfræði, hönnun, til ráðherra, mannauðsstjórnun - eiginlega hvað sem er annað en blómaskreytingar, förðun og súludans. En mér þætti samt óþægilegt að vera ekki í vinnu og afla ekki eigin tekna.
Um helgina áttum við unglingurinn spjall um atvinnumál. Hann byrjaði í menntaskóla í haust og ég spurði hann hvort hann héldi að hann vildi frekar afla 400.000 kr. eftir 10 ár með vinnu eða sem atvinnulaus. Í spurningunni gaf ég mér að það væri hlaupið að því að lifa af hvort sem maður væri á vinnulaunum eða atvinnuleysislaunum.
Unglingur: Þetta er góð spurning sem ég er einmitt mikið búinn að velta fyrir mér.
Ég: Jaaaá? [Ég veit nefnilega ekki hvaðan spurningin kom í kollinn á mér.]
Unglingur: Ég geri ráð fyrir að læra lögfræði af því að það er hægt að fá góða og vel launaða vinnu sem lögfræðingur en ég hefði mestan áhuga á að læra eðlisfræði. Ef ég verð eðlisfræðingur er ég hins vegar að dæma mig til að vera í einhverri skonsu í háskólanum með lélegt kaup.
Ég:
Unglingur: En ég held að flestir vilji bara fá kaup og sleppa því að vinna.
Ég: Neeei ...
-Þetta er skynjun hans á umhverfinu. Ég er enn ekki sannfærð um að fólk almennt vilji ekki vera í vinnu. Fólk vill hins vegar auðvitað ekki vinna hvað sem er, maður vill vinna við eitthvað sem maður hefur vit á, þekkingu til að sinna og áhuga á. Er það ekki? Og helst ætti vinnan að skila einhverju góðu (nú er ég, prófarkalesarinn, kannski komin í glerhús), tekjum sem og óefnislegum arði. Ég vil svoooooooo leggja inn í hagkerfið og þess vegna eyði ég tekjunum mínum í að styrkja íslenska framleiðslu.
En ætli það geti verið að flestir sem gætu unnið áhugaverða vinnu fyrir 400.000 á mánuði myndu velja atvinnuleysi fyrir 400.000 á mánuði ef þeir hefðu það val? Það er ekki nógu mikill peningur til að vera á endalausu flandri um allan heim. Okkur unglingnum kom saman um að það væri hægt að vera án atvinnu til langs tíma ef maður legðist í ferðalög. Svona ef við tökum eigingjarna sjónarhornið á málið.
Ég held samt enn að flestir þurfi fasta punkta í tilverunni.
Athugasemdir
Hæ- ef þú færð ekki vinnu- skaparðu þér sjálf vinnu- eða ferð í skóla. En- það er enginn skóli til fyrir stjórnmálamenn- þess vegna kann enginn neitt og veit neitt á Alþingi Íslendinga-
Erla Magna Alexandersdóttir, 17.10.2011 kl. 19:37
Það sem ég hnaut um var aðallegaum var hvað unglingnum þótti staða eðlisfræðingsins óspennandi. Ég held einmitt að hans staða, eins og svo margra annarra sem sinna sínu fagi innan Háskólanna sé algjörlega draumur í dós. Þá geng ég út frá þeirri forsendu að fólk læri það sem þeim þykir skemmtilegt til þess einmitt að vinna við eitthvað skemmtilegt.
Svo er ég algjörlega ósammála Erlu um almenna vankunnáttu alþingismanna. Á þeim vinnustað er fullt af frambærilegu fólki sem leggur alúð við vinnuna sína undir miklu álagi.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 19.10.2011 kl. 09:19
Ef maður fer í nám í einhverju skemmtilegu verður maður góður í því og þá nýtist það í vinnu, beint eða óbeint. Kröfur vinnumarkaðarins breytast, maður á ekkert að pæla í því hvað pólitíkusar eða markaðsmenn eru að biðja um. Maður á ekki að fjárfesta í draumum þeirra, maður á að fjárfesta í sínum eigin.
Gummi (IP-tala skráð) 19.10.2011 kl. 16:44
Atvinnluleysi er ekki skemmtilegt hlutskipti. Árið 2007 var Iðnskólinn í Reykjavík einkavæddur og stór hluti starfsfólks taldi sig ekki eiga heima þar lengur. Undirritaður var einn þeirra. Síðan hefi eg verið atvinnulaus yfir veturna en yfir sumartímann hafa ferðaskrifstofur hver um aðra þvera ráða mig sem leiðsögumann. S.l. sumar skilaði eg um 80 dagsverkum sem er með því allra mesta. Þetta eru einu verkefnin auk þess að starfa í kjörstjórn um 2var á ári, m.a. vegna þjóðaratkvæða sem Ólafur Ragnar hefur efnt til.
Vonandi gengur syni þínum betur að finna vinnu en gömlum skarfi.
Góðar stundir!
GJ
Guðjón Sigþór Jensson, 19.10.2011 kl. 18:51
Hey, ég er auðvitað líka á því að maður eigi að læra það sem maður hefur áhuga á. Hugsið ykkur að vera í leiðinlegu starfi alla ævi, dæs.
11 ára pjakkur var að spjalla við skólabróður sinn um daginn og sá sagðist ætla að verða tannlæknir því að honum væri sagt heima að þá yrði maður ríkur. Fyrri pjakkurinn missti andlitið og málið af undrun yfir því að hinn gæti hugsað sér að fara út í eitthvað skelfilega leiðinlegt af því að hann gæti grætt peninga á því.
Hins vegar kemur náttúrlega til greina að vera í leiðinlegu OG illa launuðu starfi og það er dapurlegt.
Berglind Steinsdóttir, 20.10.2011 kl. 17:07
Það er ýmislegt þarna sem fékk mig til að hugsa, t.d. það að unglingurinn ætli að læra eitthvað bara til þess að græða peninga en ekki fara í það sem hann hefur áhuga á vegna þess að það gefur (að hans mati) ekki nógu mikið í aðra hönd. Sammála þeim sem skrifað hafa hér að framan að ekki eigi að hugsa um hvað markaðurinn segi heldur fylgja áhugasviðinu. Ég fékk svo sem að heyra það, þegar ég fór í íslensku og síðar kennaranám, að þetta hefði verið vont val og væri ávísun á fátækt eða a.m.k. ævilöng blankheit!! en það er önnur saga!
En það sem fékk mig helst til að hugsa var þessi unglingur! Hvar geymir þú hann?
Ásgerður (IP-tala skráð) 24.10.2011 kl. 00:17
Hvaða hvaða, hefur þér aldrei orðið litið inn í eldhús?
Annars minnir þetta mig á þegar Erna skrifaði á Facebook um valkvíða vegna bíóferða og allir sögðu henni hvað hún ætti að sjá - nema ég sem spurði: Mig langar (mest) að vita hvort þú ert með stafinn ñ á símalyklaborðinu. Ertu það?
Hún var að hugsa um að sjá Buñuel, sko.
Er ekki samhengið skýrt, hmm?
Berglind Steinsdóttir, 24.10.2011 kl. 19:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.