Laugardagur, 12. nóvember 2011
Um allan heim - en Ísland rokkar
Ég var svo ljónheppin að fá að rúnta um suðvesturhornið með Kanadamenn í heimsreisu. Þetta var sprækt og kátt fólk sem var búið að fara víða á einum mánuði, byrjaði í Kína og endaði á Íslandi. Einhverjir skráðu sig í þessa lúxusferð af því að Ísland var með, eina landið í Evrópu. Ég var spurð um eldgos og afkomu, atvinnuástand og hjátrú, brottflutning fólks - en aðallega talaði ég eins og gefur að skilja. Mér og rútunni minni samdi svo vel að ég fékk að vita að það væri pláss í Kanada fyrir mig og ef mér skjöplast ekki var mér boðið starf á útvarpsstöð ...
Ég hafði ekki komið til Þingvalla síðan 19. september og sá núna í fyrsta skipti sundurgrafna Almannagjá. Mér láðist að taka myndavélina með mér úr rútunni en sjónin var býsna svakaleg. Klósettmálin þar eru líka mjög dularfull. Kostar? Eða ekki? Opið? Lokað? Fyrir ferðaþjónustuna væri betra að hafa þessa hluti eins frá degi til dags.
Mitt ágæta fólk var alsælt með allan viðurgjörning og flaug burt í gærmorgun með bros um allt andlit. Orðspor okkar vex vonandi. Hópstjórinn minn bloggaði um alla ferðina og ég var að reyna að ná mynd af mér af blogginu hennar. Það tókst alls ekki, líklega varið gegn stuldi sem kemur vel á vondan því að hún hefur svolítið dularfullt eftir mér um glæpatíðni og athafnasemi lögreglunnar - sem ég mun auðvitað aldrei gangast við.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.