Mánudagur, 14. nóvember 2011
Bónus með Hreinsun í Þjóðleikhúsinu
Ég sá 6. sýningu á Hreinsun, fantafínni sýningu um þrælahald, oft kallað mansal, og undirokun, hremmingar stríðsins, heljargreipar oftrúar á til dæmis kommúnismann, gagnrýnisleysi og annað það sem líka mátti lesa um í bókinni eftir Sofi Oksanen.
Tímaskeiðunum er blandað saman, Aliide er ung og Aliide er gömul og allt skilst það ljómandi vel. Ég get svo sem ekki vitað hvort það hjálpaði skilningnum hjá mér að ég hef lesið bókina en ég held að þessi 2,5 tíma sýning plumi sig án þess forskots.
Mér fannst varla veikur hlekkur í leiknum, kannski er bara orðið svona auðvelt að gera mér til hæfis eða kannski eru leikarar almennt svona góðir. En bónusinn var að strax að sýningu lokinni settust leikarar, leikstjóri, hönnuður leikmyndar og leiklistarráðunautur niður og ræddu sýninguna við þá sem höfðu áhuga á og tíma til að sitja aðeins lengur.
Spurningar voru helstar um leikmyndina og hvernig væri að leika svona hrylling. Ég skildi Margréti Helgu þegar hún talaði um að hennar persóna lokaði hringnum sínum og hreinsaði sig burtu og þess vegna sæti hún í lok sýningar ekki uppi með eins erfiðar tilfinningar og þyrfti fyrir vikið ekki að fara út á Gróttu og garga upp í vindinn eins og stundum jaðrar við að vera nauðsynlegt þegar tilfinningarnar stoppa í brjóstholinu. Svo virtust þau á einu máli um að erfiðustu tilfinningarnar væru á æfingatímabilinu, þegar heimildavinnan er unnin og ýmis hryllingur skoðaður.
Það má mikið vera ef ég kaupi mig ekki inn á fleiri 6. sýningar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.