Þriðjudagur, 29. nóvember 2011
Eru ekki bankarnir sprengfullir af peningum?
Einhvers staðar heyrði ég að bankarnir væru yfirfullir af peningum, og það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ég held að það væri nær að þeir peningar færu í vinnu en að stíla inn á og stóla endalaust á erlent fé. Það er eðli viðskipta að vilja fá arð af peningunum sínum og ég held ekki að Juan, Huong eða Jón séu í góðgerðastarfsemi, alveg sama hvort þeir eiga lopapeysur eða flíspeysur.
Það eru svo margir búnir að tjá sig um bæði kínverja og Kínverja upp á síðkastið að það er að bera í bakkafullan lækinn að segja aukatekið orð til viðbótar en ég segi samt að ég held að hinn stóri þögli meirihluti vilji að landgæði séu í almannaeigu rétt eins og fiskimiðin. Svo heyrði ég í kvöld að íslenskur auðmaður hefði keypt ógrynni lands fyrir austan um árið og allir haldið að hann ætlaði að græða upp landið, skaffa vinnu og snúa hamingjuhjólinu. Það varð ekki, ekki frekar en hjá auðmanninum sem keypti dobíu í Mýrdalnum.
Að koma með (erlent) fé er engin andskotans lausn, það vantar vinnu og hvers vegna framleiðum við ekki meira sjálf? Fullvinnum fiskinn? Vinnum úr hráefninu áli? Ræktum grænmeti og ávexti í gróðurhúsunum? Fáum ferskara grænmeti sem hefur ekki ferðast mörg þúsund kílómetra áður en það kemst í salatið okkar?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.