Föstudagur, 9. desember 2011
Spekúlerað í gönguferð
Í þessum kulda - sem er ekki fyrir greyið mig - er dýrmætt þegar sólin skín og útsýnið er íðilfagurt. Þannig var í dag og ég fór út í hádeginu, gekk um og hugsaði um tíðindi vikunnar. Eins og ævinlega tjáir sig frekar lítill og hávær hópur um það sem hæst ber.
Og hvað bar þá hæst? Ekki meinta nauðgun, heldur myndbirtingu á vef sem fólk fordæmir ógurlega. Las fólk þennan vef áður? Var hann á mörkum hins siðlega? Hafði fólk dálítið gaman af slúðrinu og grensunni? Sá það þessa mynd sem velti hlassinu?
Ég les netið og hef skoðanir en ég hafði ekki fyrr en í þessari viku lesið texta eftir Egil sem er fréttaefnið hér. Kannski hafði ég afgreitt hann sem kjána í stað þess að taka alvarlega þá slæmu fyrirmynd sem hann er. Mér fannst hann hlægilegur en sumt fólk leit upp til hans. Og hann telur sig í færum til þess að vísa fólki veginn.
Sem neytendur frétta berum við líka ábyrgð. Ef dagblöð eru keypt vilja auglýsendur auglýsa í þeim. Í netheimum virka smellirnir.
Ég veit ekki hið sanna í málinu en ég held að fólk sé aðallega brjálað út í sjálft sig fyrir að gefa slúðrinu líf og stoppa ekki vafasamar fyrirmyndir. Og nú ætlar það að bæta fyrir allar syndir sínar í einu lagi.
Hádegið var í styttra lagi, kannski er ég ekki búin að spekúlera nóg ...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.