Þriðjudagur, 13. desember 2011
Desember - bíómynd
Ég missti næstum af síðasta sunnudagsbíói sjónvarpsins. Annað hvort hef ég horft (of) lítið á sjónvarpið upp á síðkastið eða hún var of lítið kynnt.
Mér finnst Desember flott mynd. Mér finnst skemmtileg tilbreyting að íslensk bíómynd gerist í Reykjavík. Mér finnst fullmikil lenska að setja íslenskar bíómyndir niður á litlum stöðum víðs fjarri mér. Ég held að ef ég væri útlendingur að stúdera íslenskar bíómyndir kæmist ég að þeirri niðurstöðu að landsbyggðin væri langtum frekari til fjörsins en hún er.
Ég hef sko ekkert á móti landsbyggðinni, ég er bara að spá í speglunina í þessu.
Sagan: Jonni (Tómas) kemur heim úr sjálfskipaðri útlegð og kemst að því að Ásta (Lay Low) er gengin honum úr greipum. Hann er hins vegar svo miklu meira sjarmatröll en Albert (Stefán Hallur Stefánsson) að Ásta á erfitt með að horfa framhjá honum og endurkomu hans. Á daginn kemur að systir Jonna (Laufey) er virkur alkóhólisti og vanrækir börnin sín tvö. Mamma (Guðrún Gísladóttir) og pabbi (Ellert A. Ingimundarson) Jonna hafa verið meðvirk og börnin hafa liðið fyrir það.
Ég er mjög skælin þegar börn verða illa úti og hér var mjög vel haldið á því, m.a. var systirin mjög geðug af og til sem gerir það hálfu sársaukafyllra.
Lay Low kann að syngja og hún naut sín vel í hlutverkinu. Mér fannst enginn standa sig illa en stjörnurnar í mínum augum voru krakkarnir sem léku krakkana (veit ekki hvað þau heita) og svo hann Jón Páll Eyjólfsson. Skrambans að hann skuli ekki leika meira.
Fegin að ég missti ekki af myndinni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.