Þriðjudagur, 10. janúar 2012
Segin saga
Ég horfði loksins á Innherjaránið sem var í sjónvarpi allra landsmanna í síðustu viku. Ég hélt að ég væri búin að sjá þetta allt, enda hafa heimildamyndirnar verið allnokkrar síðan Lehman-bræður duttu á hausinn í september 2008 og tóku ýmsa með sér í fallinu.
Og já, mér fannst ég ekki sjá margt nýtt. Ný nöfn, ný andlit, breyttar tölur, annar gjaldmiðill, stærri heimur - en kommon, upplýsingarnar liggja fyrir. Það skiptir sáralitlu fyrir upplifunina, skynjunina og skilninginn hvort við vitum um 101. dúddann eða 201. dúddínuna. Fjármálaglæframenn með hagfræðimenntun eða aðra fjármálamenntun skákuðu í meintu vitneskjuskjóli en svo þegar á hólminn var komið báru þeir fyrir sig þekkingarleysi, upplýsingaskort eða almennt siðleysi. Kölluðu það eitthvað annað eins og eðlilegan ágóða, launagreiðslur eða bónusa fyrir vel unnin störf við að setja stórfyrirtæki á hausinn og koma nytsömum sakleysingjum á kaldan klaka.
Já, kölluðu það eitthvað annað auðvitað.
Það verður áreiðanlega hægt að gera aðra heimildamynd í bíólengd og segja frá enn fleiri fundum, sýna fleiri skot frá fíflum sem sitja eins og þvörur fyrir framan þá fáu bandarísku þingmenn sem bæði skildu og þorðu að þjarma svolítið að þeim, rifja upp fleiri tölvupósta þar sem menn tala um að varan sem þær ætla að selja fyrir morð fjár sé drasl og ætti að vera óseljanleg.
En nú þarf aðgerðir. Eftir hverju er beðið?
Jú, líklega því að forseti Bandaríkjanna sé ekki lengur á mála hjá fjármálaöflunum. *geisp*
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.