Fimmtudagur, 12. janúar 2012
Vegna útlits eða ekki
Ég les lítið af öfgafullum síðum þannig að ég stend í þeirri meiningu að umræðan um PIP sé öll mjög stillt og yfirveguð. Samt heyri ég auðvitað bæði þá afdráttarlausu skoðun að ríkið eigi að borga umyrðalaust fyrir að fjarlægja iðnaðarsílíkonið og það skorinorða viðhorf að konur sem kjósa þá áhættu að fá aðskotahlut í líkamann eigi sjálfar að axla þá ábyrgð sem fylgir.
Nú hefur læknirinn sem gerði 40 aðgerðir á ári í 10 ár stigið til hliðar vegna eigin veikinda. Ekkert veit ég hvað hann hugsaði eða vissi og ætla ekki að gera honum neitt upp. En getur verið að maður sem flytur inn sílíkon og kemur því fyrir á svona viðkvæmum stað viti ekki um áhættuna af því? Verðleggur hann ekki þjónustuna út frá því? Eða hvernig er verðið myndað? Hvaða tekjur hefur hann haft af hartnær einni ígræðslu á viku til viðbótar við aðrar lýtaaðgerðir á eigin stofu og það að vera yfirmaður á deild á Landspítalanum?
Mér dettur ekki í hug að allar konur sem fá svona sílíkon geri það af hégómleika. Ég er ekki hlynnt því að konur séu með tifandi tímasprengjur innanborðs. En það hlýtur að vera einhver fjárhagsleg brú þarna. Það verður engin sátt um að gróði af svona nokkru hafni í öðrum vösum en þarf að grafa ofan í til að borga fyrir tjónið.
Hver átti að hafa eftirlitið? Klikkaði sá aðili? Ein vinkona mín gróf upp 10 ára gamla Veru þar sem einhverju í þessa veru var spáð. Var þetta ekki pínulítið fyrirsjáanlegt?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.