Þriðjudagur, 24. janúar 2012
Kossar Stalíns
Ég hélt að sænskan mín væri óaðfinnanleg, ehemm, en þegar ég sá titilinn Stalins kossor skriplaði ég á skötunni. Þetta var auðvitað sænska þýðingin á Kúm Stalíns eftir Sofi Oksanen en það er ekki frítt við að ég hafi séð Stalín í fullmjúku ljósi í augnablik eða tvö. Hvernig ætli titillinn Kusur Stalíns hefði mælst fyrir?
Ég las hana hálfa. Mér finnst hún vel skrifuð og íslenskan falleg.
Af hverju kláraði ég hana þá ekki?
Hún er um togstreitu milli landa, milli sjálfstæðis og ósjálfstæðis, eldri og yngri, sæmdar og skammar - en kjarninn, þungamiðjan og umbúðirnar eru átröskun. Eftir 250 síður var ég farin að átta mig á að sögumaður fegraði fyrir sjálfri sér áráttu sína til að kasta upp matnum sem hún gleypti. Hún sagðist standa sig vel í námi, líta vel út og ná árangri en um leið var hún félagsfælin með afbrigðum, alltaf á varðbergi, sífellt að reikna út heitaeiningar og rög við skuldbindingar.
Þrátt fyrir allt fannst mér þessi fína bók of langdregin og ég tengdi engan veginn við hinn meginþráðinn í henni. Þess vegna skilaði ég henni á bókasafnið þegar hálfi mánuðurinn var uppurinn.
Athugasemdir
Þetta minnir mig á að ég þarf að fara að finna mér eitthvað gott að lesa á dönsku. Las jólahefti Familie Journalinn upp til agna og hafði gríðargaman af.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 25.1.2012 kl. 12:52
Tove Ditlevsen! Gift er merkileg bók, også på dansk.
Berglind Steinsdóttir, 25.1.2012 kl. 14:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.