Þriðjudagur, 31. janúar 2012
Og Melabúðin klikkar líka
Það er erfitt að finna matvörubúðir sem maður vill versla við. Keðjurnar eru ráðandi og manni hefur verið komið í skilning um að þær séu ekki traustsins verðar, merki vitlaust og selji blandaðar vörur. Ókei, vottur af alhæfingu í þessu, en sjálf hef ég fengið vonda þjónustu, rangar upplýsingar og útrunna vöru í of mörgum verslunum og þekki aðra sem hafa lent í því sama. Það er til marks um að viðskiptahættirnir eru vafasamir að alltaf þegar maður bendir á mistök eru þau leiðrétt umyrðalaust, líklega af því að andlit verslunarinnar, kassadömur af báðum kynjum, veit að það er hætt við rangri verðmerkingu. Ég hef verið hyskin við að fara aftur í búðina og fara fram á endurgreiðslu þegar ég sé seinna að ég hafi verið tvírukkuð og skammast mín fyrir það. Maður á að láta vita svo hægt sé að leiðrétta.
En svo eru litlu búðirnar eins og Melabúðin og stóra einstaka búðin Fjarðarkaup. Ég fer því miður næstum aldrei í Fjarðarkaup sem er utan míns þjónustusvæðis en ég hef gert mér ferð í Melabúðina af og til síðustu þrjú árin. Hef viljað standa með stöku búðunum og góðu gæjunum þótt það kosti meira.
Í síðustu viku sá ég úrvalssúkkulaði með 40% afslætti í Melabúðinni. Þá kostuðu 100 grömmin 263 krónur í stað 439 og ég sem er að ná dökka súkkulaðiþroskanum ákvað að grípa tvö svoleiðis. Ég leit auðvitað aftan á af gömlum vana og sá að þau runnu út 5. janúar 2012. Samt er ég ekki viðkvæm fyrir dagsetningum, síst á vöru sem hefur líftíma í heilt ár. Þegar ég kom að kassanum sagði ég við andlit verslunarinnar að það væri nú í lagi að merkja útsöluvöruna sem útrunna - sem strangt til tekið má ekki selja - og andlitið sagði að varan væri ekki útrunnin. Það fór þó ekki á milli mála og þá sagði afgreiðslumaðurinn: Þetta var líka á útsölu í desember.
Úff.
Röðin hafði verið svo sniðug að ég brosti bara og sagðist vera viss um að súkkulaðið væri áfram gott og ég ætlaði að kaupa það en myndi líta á þetta næst þegar ég kæmi.
Í leiðinni hafði ég gripið með mér hvítlaukspressu sem var vandlega verðmerkt á 905 krónur. Á strimlinum stóð hins vegar 1898 krónur þannig að ég fór brosandi til afgreiðslumannsins, sýndi honum miðann og pressuna og sagðist alveg hafa fimm mínútur til að fá þetta leiðrétt. Hann brosti samviskusamlega ekki en sagðist ætla inn til Péturs að spyrja hann, kom svo fram aftur og greiddi mér mismuninn.
Kannski verðmerkja þau sjaldan vitlaust í Melabúðinni og ég bara einstaklega óheppin að fá tvær vitleysur í einni lítilli innkaupaferð. Kannski var hann þess vegna alveg laus við þjónustulund, maðurinn sem afgreiddi mig, svona til mótvægis við meintar lágvöruverðsverslanir sem virðast alltaf vita upp á sig sökina.
Í dag fór ég aftur í Melabúðina og sá að góða súkkulaðið sem ég er búin að leyfa mörgum að smakka á var enn á útsölu en nú með nýrri og góðri dagsetningu og ákvað að dekstra við bragðlauka hist og her. Sami maðurinn afgreiddi mig en nú brá svo við að súkkulaðið var alls ekki á útsölu þótt það væri kirfilega merkt þannig. Og í staðinn fyrir að fara aftur inn í búðina og láta hann leiðrétta vitleysuna ákvað ég að offra 200 hundruð krónunum og fara í langa fýlu út í Melabúðina.
Ég var ekki stór kúnni en nú er ég enginn kúnni. Hvernig er Pétursbúð?
Athugasemdir
Góð setning: "Ég var ekki stór kúnni en nú er ég enginn kúnni." Hef litla reynslu af Pétursbúð en Hrafn mælir ægilega vel með henni.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 2.2.2012 kl. 10:11
Jamm. Synd að maður skuli ekki vera aðeins oftar í Hafnarfirði. Mig minnir að mér þyki Pétursbúð helst til lítil fyrir mig (með mitt útblásna verslunaræði, hehe) og hið sama á við um Sunnubúð (minnir mig að hún heiti). Og Rangá utan þjónustusvæðis. Hey, Víðir!
Berglind Steinsdóttir, 2.2.2012 kl. 22:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.