Fimmtudagur, 9. febrúar 2012
Djett?
Ég er alls ekki mótfallin tökuorðum og tala til dæmis hikstalaust um djass, blús og pítsur enda eru svo sem engin önnur nothæf orð til á íslensku um fyrirbærin. Jú, flatbaka var fundin upp um árið en hefur ekki náð meiri hylli en nýyrðið þjál fyrir plast. Eina þýska tökuorðið sem ég kannast við í íslensku er besservisser eða talar nokkur um beturvitrunga? Reyndar man ég núna að ég heyrði skolli gott orð fyrir svona vita um daginn en er aftur búin að gleyma því.
Þótt ég noti þessi hálfútlensku orð eins og ekkert sé skrifa ég þau með rithætti sem ég tel íslenskan. Ef þrýstiloftsflugvél hefði ekki verið valin um árið og svo stytt niður í þotu velti ég fyrir mér hvort við töluðum um djett. Ég meina, ég hef undrast það að fólk skrifi jass og enn meira jazz í ljósi þess að z er eiginlega bara í sérnöfnunum Tarzan og Zoëga - og yrði ég þá ekki að skrifa djett til að vera samkvæm sjálfri mér?
Djók.
Athugasemdir
ég heyrði nýyrði fyrir Besserwisser sem mér leist á og var það sjálfviti.
Auður H Sig (IP-tala skráð) 16.2.2012 kl. 18:52
Alveg rétt, ég var búin að sjá það hjá þér. Nú ætla ég að muna það, takk.
Berglind Steinsdóttir, 16.2.2012 kl. 19:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.