Sunnudagur, 19. febrúar 2012
Auglýsing með sögu
Það er svakalegt að horfa á Silfur Egils og langa mest til að tala um bílaauglýsingu sem var birt á milli viðtala en ég verð að taka ofan fyrir þeim sem hannaði auglýsinguna um bílinn sem kemst allt í snjó og slabbi, m.a.s. þannig að krakkar komast í skólann í ófærð - og kunna foreldrum sínum engar þakkir fyrir.
Ég man enn, hálftíma síðar, hvaða bíl var verið að auglýsa og finnst leikþátturinn snjall. Varð að segja það - og er hér með búin að segja það við alla sem rápa um síðuna mína í dag. Ef auglýsingar eiga að ná til mín, ehemm, mega þær ekki vera, ehemm, of heimskulegar. Ég vil ekki láta segja mér í auglýsingu að allt verði frábært og ALLIR glaðir ef maður kaupir þennan blandara, hinn bílinn eða einhverja METSÖLUbók (sem einmitt fáránlega margir eru þegar búnir að kaupa).
En ég hlakka samt mest til að sækja hjólið mitt úr yfirhalningu hjá Kríu-hjólum á morgun. Ví.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.