Mánudagur, 27. febrúar 2012
Að hlusta á hljóðbók er góð skemmtun
Ástæðan fyrir því að ég hlusta sjaldan á Rás 1 er að þar er gjarnan lesið fyrir hlustendur. Því fylgir oft lestrartónn - og þá er ég ekki einu sinni að tala um veðurfréttirnar, Skarðsfjöruvita og Útnárasker - að ég tali ekki um messutóninn sem vekur mér sama hroll og flugfreyjutónninn. Inn á milli eru vissulega viðtalsþættir og fréttir sem þægilegra er að hlusta á. Það er svo margt útvarpsefni í boði að ég á í engum sérstökum vanda með að finna stöðvar mér að skapi. Í sérstöku uppáhaldi er ... nei, annars, leyndó.
Það þarf ekki að vera lestrartónn, það er hægt að leiklesa og ég fékk lánaða hljóðbók á bókasafninu, bók sem leikarinn Friðrik Friðriksson les. Frábært. Listin er víða.
Hins vegar tekst mér ekki að koma lestrinum á iPoddinn minn þannig að ég get ekki hlustað úti við. Það er verra og ég velti fyrir mér hvort það snúist um að kaupa eða fá lánaða hljóðbókina. Mér finnst það svo ótrúlegt að ég hallast að því að ég sé bara ekki búin að læra á græjuna frá eplinu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.