,,Þú dast mér í hug"

Þýskur vinur minn sagði þetta við mig um daginn þegar hann sagði mér að hann hefði verið spurður um leiðsögumann í tiltekið verkefni. Ég varð pínulítið hvumsa en það er ekkert hægt að setja út á þessa setningu.

„Mér datt þú í hug“ hefði ég sjálfsagt sagt sjálf en í báðum tilfellum eltir sögnin frumlagið, alveg eins og manni hefur skilist að sé „rétt“ og viðtekið. Að vísu er hún þá í seinna tilfellinu ópersónuleg og eiginlega órökréttari, „rétta“ útgáfan mín.

En hvað er sossum „rétt“ annað en það sem meiri hlutinn hefur komið sér saman um að fari betur en annað? Málfræðin er að minnstu leyti búin til fyrirfram, hún er eftirálýsing til að samræma sem best svo að við tölum sem mest saman.

Það er meinhollt að hlusta á útlendingana sem hafa lært íslensku þegar maður vill kanna þanþol tungumálsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Skemmtilegar pælingar.

Þýðingar eru vandasamar.

Íslenskan er ekki alltaf auðveldasta tungumálið til að þýða úr. Oft verður mjög að varast þar sem tungumál eru ólík. Íslenskan byggir ekki alltaf á mikillri rökfræði. Gott dæmi er hve rík tilhneyging er að nota þátíð þar sem nútíð er rökréttari.

Í nýlegri íslenskri sakamálasögu segir:

„Annar sem hún hvíslaði stundum inn í eyru Tedda hét Sigurður Óli og var einhver einhvers konar furðufugl....“. (Myrká eftir Arnald, bls.14).

Ef þýðandi þýsku útgáfunnar hefði haldið sig við þátíðina rækju þýskir lesendur í rogastans: bíðum við, er þetta ekki nafnið á öðrum aðstoðarmanni Erlends? Nú er hann látinn síðan í síðustu sögubók? Úr hverju skyldi hann hafa látist?....

Í þýskunni er nútíð notuð hiklaust í tilfelli sem þessu, alla vega meðan viðkomandi er enn ofar torfu.

Rökréttara væri að setningin væri svona og væri ekkert því til fyrirstöðu:

„Annar sem hún hvíslaði stundum inn í eyru Tedda heitir Sigurður Óli og er einhver einhvers konar furðufugl....

Því miður varast ekki allir hvað betur megi fara í mæltu máli eða texta. Góð venja er að láta aðra lesa yfir sem bera gott skyn á íslenska tungu.

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 6.3.2012 kl. 13:25

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Guðjón minn, þú skrópaðir á aðalfundinn á mánudaginn.

Berglind Steinsdóttir, 6.3.2012 kl. 18:40

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Satt best að segja hefi eg ekki lengur úthald að sitja aðalfund sem tekur marga klukkutíma og er kannski jafn árangusríkur og enginn fundur hafi verið haldinn.

Mér finnst að leiðsögumenn týna sér stundum í málgleði, þeir mættu læra að draga saman mál sitt, grina aukaatriði frá aðalatriðum og setja fram skýrari hugsun.

Eg hefi setið marga aðalfundi, margir þeirra hafa verið um það bil klukkustund þar sem allt er skýrt sett fram: skýrsla stjórnar, reikningar, lagabreytingar ef þörf er á, kosningar og önnur mál. Auðvitað þarf undirbúningur að vera góður og fundarmenn málefnalegir. Því miður hefur oft verið annað uppi á tengingnum.

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 7.3.2012 kl. 23:05

4 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Það hefur skánað en ég skil þig vitaskuld mjög vel. Það er til þess að gera stutt fyrir mig að fara þannig að ég hef látið mig hafa það.

Berglind Steinsdóttir, 8.3.2012 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband