Miðvikudagur, 14. mars 2012
*Ég vill
Ég er alltaf aðeins að velta fyrir mér tungumálinu, réttu og röngu, málvenjum, málsniði, (ó)þörfum breytingum, þróun og hinu nýja dvalarhorfi - svo eitthvað sé nefnt.
Í tíma í síðustu viku kom okkur sem endranær saman um að fyrir mestu væri að málkerfinu væri ekki ógnað. Það getur vel verið að menn segi yfir línuna eftir 30 ár *mér langar eða *mig hlakkar og þótt okkur finnist það ljótt og jafnvel dálítið óþægilegt er það ekkert alvarlegt. Varla rangt og alls engin ógnun við málkerfið. Það truflar mig að fólk spái í *einhverju en hver getur fullyrt að það sé rangt?
Svo eru villur eins og *ég vill sem eru frekar rökréttar af því að núþálegar sagnir eru eins í 1. og 3. persónu eintölu, sbr.
ég mun og hann/hún/það mun,
ég á og hann/hún/það á,
ég ann og hann/hún/það ann,
ég kann og hann/hún/það kann,
ég man og hann/hún/það man,
ég veit og hann/hún/það veit,
ég þarf og hann/hún/það þarf,
ég skal og hann/hún/það skal,
ég má og hann/hún/það má
- en svo ég vil og hann/hún/það vill.
Ef hins vegar málnotendur taka upp á að segja hann vill og *hún vil í þeirri trú að sagnir beygist eftir kynjum fer kerfið að skjálfa. Og þá verð ég áhyggjufull.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.