Miðvikudagur, 21. mars 2012
Áhyggjur af greinarmerkjum ...
Undanfarið hefur það ágerst að menn setji bil á undan upphrópunarmerki! Mér finnst það eins órökrétt og að setja bil á undan punkti eða kommu í upptalningu. Kannski verð ég á endanum í minni hluta með þessa skoðun af því að þróun í tungumáli segir ekki svo obbossla gjörla til um rétt og rangt.
Annað sem veldur mér STÓRFELLDUM áhyggjum í greinarmerkjasetningu er vaxandi tilhneiging til að setja þrjá punkta með í beina tilvitnun þótt tilvitnunin sé augljóslega bara hluti af málsgrein hvort eð er. Glænýjasta dæmið er úr stofnanabréfi sem birt var á vefnum. Ég hef vanist því að punktarnir séu bara með ef málsgreinin (frá upphafsstaf í fyrsta orði til lokapunkts) er næstum öll með í gæsalöppunum. ... hægja ranglega á lestrinum ...
Erfitt að útskýra. Tóm vaðandi tilfinningasemi í mér!
Í síðustu viku hlustaði ég á visir.is á textabrot af FM (sem ég hlusta aldrei á) þar sem ungt fólk fór mörgum orðum um pirringsatriði í tungumálinu. Ég var ekki sammála öllu sem þetta góða fólk gerði að umtalsefni, sbr. meintan mun á takmarki og markmiði. Ég held að sá einstaklingur hafi ruglast á takmarki og takmörkun. Svo bar ýmis framburðaratriði á góma og til dæmis það að jólamaturinn heitir hamborgarhryggur en ekki hamborgarahryggur þannig að unga fólkið er ekki dautt úr öllum æðum. Þá dettur mér auðvitað í hug að nefnd á þingi heitir saksóknarnefnd en ekki saksóknaranefnd. Útbreiddur misskilningur ...
Það var sem sagt hressandi að heyra fólk ergja sig yfir óvandvirkni og latmæli og almennu sleifarlagi. Og hugsum síðan aðeins um gæsalappirnar ...
Athugasemdir
Skemmtileg pæling.
Annað sem vefst fyrir mörgum er lok tilvitnana. Hvort á seinni gæsalppin að vera á undan punkti eða á eftir:
„....“. Eða: „.....“
Þessi munur kemur betur í ljós þegar settir eru punktar í stað orða.
Bestu kveðjur.
Guðjón Sigþór Jensson, 21.3.2012 kl. 18:59
Jamm. Og þú skrópaðir í fræðsluferðina á Þingvöll í kvöld. Misstir af miklu.
Berglind Steinsdóttir, 22.3.2012 kl. 23:12
Er orðinn gjörsamlega utangátta hjá þessu blessaða félagi. Mér var hent út af póstlista af einhverjum ókunnum ástæðum og fæ því aldrei neinar fréttir.
Guðjón Sigþór Jensson, 23.3.2012 kl. 10:15
Næsta fimmtudag er safnaferð, kl. 17-19. Verður ábyggilega auglýst á touristguide.is:
Kæru leiðsögumenn. Listasafn Reykjavíkur býður leiðsögumönnum í heimsókn fimmtudaginn 29. mars kl. 17-19.Í boði: Leiðsögn um Hafnarhúsið, Ásmundarsafn og Kjarvalsstaði, akstur milli staða, kaffi og kleinur.
Berglind Steinsdóttir, 23.3.2012 kl. 11:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.