Sunnudagur, 8. apríl 2012
,,Aldrei fór ég suður"
Ég fór svo sem ekki vestur (landfræðilega meira í norður samt) til að fylgjast með rokkhátíð alþýðunnar en Inspired by Iceland færði mér tónleikana heim í stofu. Og þvílíkt sem það var gaman. Ekki allar hljómsveitirnar skemmtu mér, skárra væri það, en alveg áreiðanlega sjálfum sér og mörgum öðrum.
Ég var aðeins að velta fyrir mér umhverfinu sem tónlist sprettur úr. Það má vel vera að engin hljómsveitanna eða flytjendanna 32 sem eru á listanum fái greitt fyrir að koma fram, hvorki af aðgangseyri né beint úr sjóðum hins opinbera en vonandi eru nógu margir sem kaupa diskana eða einstök lög. Ég uppgötvaði Retro Stefson sem var þangað til í gærkvöldi bara nafn á blaði fyrir mér og ég mun sannarlega leggja eyrun betur við í framtíðinni.
Ég er að velta fyrir mér úrtöluröddunum vegna til dæmis listamannalauna. Það er nefnilega ekki alltaf svo einfalt að þeir borgi beint sem njóta. Ég fékk þessa tónleika alveg gefins. Ég borga hins vegar skatta og á sumt sem er líka alveg gefins, til dæmis heilbrigðisþjónustu, reynir lítið hjá mér. Hins vegar tek ég þátt í þeim kostnaði og það með glöðu geði. Tónleikunum er sjónvarpað á alheimsvefnum sem þýðir að ekki aðeins ég í Reykjavík heldur Unnar í London og leikhúsvinir hans geta fylgst með - og heillast. Þeir koma sumir og aðrir segja frá og taka þátt í veltu ferðaþjónustunnar.
Lífið er ekki alltaf svo einfalt að maður geti rukkað alla réttlátlega og nákvæmlega fyrir það sem þeir njóta. Og listageirinn á allt gott skilið, líka í efnahagslegu tilliti.
Mörg eru hrikalega flink með gítara og hljómborð, raddir og framkomu, og bjuggu til ógleymanlega stemningu. Líka fyrir mig sem hef slappt tóneyra og er þjökuð af bullandi lagleysi (að sögn).
Ég þakka Mugga, Mugison og öllum hinum páskalega fyrir allt dekrið og ætla í búðina eftir helgi til að kaupa disk.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.