Mánudagur, 4. júní 2012
Kappræðurnar á Stöð 2 í gær
Ég er í fámenna hópnum sem blöskraði ekki fyrir helgi að Stöð 2 ætlaði að bjóða bara Ólafi Ragnari og Þóru í kappræður í sjónvarpi til að laða fram sjónarmið þeirra forsetaframbjóðenda sem hafa mælst hæst í skoðanakönnunum.
Stöð 2 er einkastöð sem ég kaupi ekki áskrift hjá og ég get engar kröfur gert til stöðvarinnar. Ég get heldur ekki heimtað kappræðurnar í neinni mynd í ólæstri dagskrá.
Þóra mæltist til þess að allir sex frambjóðendur fengju að koma. Stöð 2 varð við því en hefði getað náð Ólafi og Þóru saman, eins og til stóð, með því að hafa tvo og tvo frambjóðendur saman eftir stafrófsröð.
Þá neituðu þrír frambjóðendur að taka þátt. Þetta er allt þekkt. Ég fylgdist með kappræðunum og miðað við umræðuna á Facebook hættu flestir að horfa en höfðu samt skoðun á umræðunni.
Mér fannst margt athyglisvert koma fram en heildarniðurstaða mín er sú að það skiptir ekki öllu máli hvað frambjóðendur segja, það skiptir eiginlega meira máli hvernig þau segja það. Þegar upp verður staðið kýs ég eftir tilfinningu.
Nú er viss hópur í samfélaginu skotinn í ÓRG fyrir að hafa virkjað beint lýðræði í nokkur skipti. Icesave er núna fyrir dómstólum og við vitum ekki hvernig það endar. ÓRG sagði á sínum tíma að tvö til þrjú kjörtímabil væru hæfilegur tími. Ég man ekki hvað hann sagði um 26. gr. stjórnarskrárinnar en hann hefði engan veginn getað sagt árið 1996 hvernig hann væri líklegur til að bregðast við fjölmiðlalögunum 2004 og Icesave 2 og 3 nokkrum árum síðar.
Kosningaloforð eru huglæg og erfitt að ganga eftir reikningsskilum.
Nú hef ég velt enn frekar fyrir mér fyrirkomulaginu. Ég las netið í gærkvöldi, hlustaði á viðmælendur á Bylgjunni í bítið og svo heyrði ég í Mána á Harmageddon síðdegis. Ég er enn staðfastari í því að Stöð 2 hafi verið í fullum rétti til að bjóða bara þeim tveimur sem hafa mælst hæst. Stöð 2 hefur ekki sömu lýðræðislegu skylduna og RÚV sem rukkar okkur öll um nefskatt. Stöð 2 hefur fullt leyfi til að reyna að búa til það sjónvarp sem hún telur til dæmis söluvænlegt.
Hins vegar er tvennt sem ég hefði viljað sjá öðruvísi. Stöð 2 hefði átt að gera sína eigin skoðanakönnun og segja fyrirfram að þeir frambjóðendur sem fengju meira en 10% (eða aðra tölu) fengju boð um að koma. Ég er sammála því sem kom fram í Harmageddon að svona þáttur þarf ekki að vera almenn kynning á öllum frambjóðendum, ef fólk vill kynna sér stefnumálin getur það skoðað heimasíðurnar, farið á kosningaskrifstofurnar eða beðið eftir kynningunni á RÚV. Þar fyrir utan hafa einstakir frambjóðendur kynnt sig víða, t.d. Hannes Bjarnason á Sprengisandi í gærmorgun og í Fréttablaðinu á laugardaginn. Það er ekki gerð krafa um 50% atkvæða til kjörins forseta, hann þarf bara að fá flest atkvæði og þess vegna er eðlilegt að reyna að þrengja hringinn um þá sem koma helst til greina.
Hitt sem Stöð 2 gerði illa að mínu mati var að sýna grínið frá Spaugstofunni. Það var hallærislegt og algjörlega yfirmáta ófyndið.
Mér fannst ýmislegt klúðurslegt, t.d. þóttu mér sumar spurningarnar illa valdar og jafnvel endurteknar, of mikið hamast í sitjandi forseta (kannski er það til siðs í öðrum löndum), fulllítið spontanítet í spyrlunum (hef samt samúð með hlutskipti þeirra) og svo fór þátturinn 20 mínútur fram úr auglýstum tíma. Hins vegar slokknaði ekki á útsendingunni hjá mér (er ekki í viðskiptum við Símann) og mér finnst sérkennilegt að fólk gargi sig hást út í Stöð 2 fyrir mistök símafyrirtækis.
Þau þrjú sem gengu út gerðu í mínum augum mistök og skildu hin þrjú eftir með allt sviðsljósið. Miðað við umræðuna sem ég hef orðið vitni að í dag þykist ég vita að ég sé í stórkostlega miklum minni hluta með þessa afstöðu en ég ekki lengur í minnsta vafa.
Svo get ég undrast það hér og nú að sem ég ætlaði í mesta sakleysi að hlusta á fréttatímann á Rás 2 kl. 19 í kvöld mættu mér fantafínir tónleikar til heiðurs Bretadrottningu. Það var fullt af fínum flytjendum en ég vildi samt frekar heyra fréttirnar. Hvaða skyldur hefur RÚV? Ég gái ekki reglulega hvort RÚV ætlar að standa við fréttatímann og flaska reglulega á því þegar íþróttaviðburðir skáka honum út í horn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.