Fimmtudagur, 5. júlí 2012
10-12 árlegir milljarðar í svörtu hagkerfi ferðaþjónustunnar?
Að sögn er heilmiklum peningum skotið undan í ferðaþjónustunni. Hingað streymir fólk sem aldrei fyrr til að skoða land (og þjóð (og dýr)), smakka mat, gista o.s.frv. en laun mauranna í ferðaþjónustu eru afar lág. Ég man gjörla þegar ég réð mig einu sinni í hótelvinnu úti á landi (skammt frá bænum) og átti að keyra í 40 mínútur í vinnuna í mínum tíma, fyrir mitt bensín og á mínum bíl, fá herbergi á milli löngu vaktanna og mat í vinnutímanum (af því að það var ekki í önnur hús að venda og enginn eiginlegur matartími) og þegar ég reiknaði tímakaupið var alveg augljóst að ég hefði betra upp úr því að leigja íbúðina mína og fara í ferðalag til annarra landa.
Hvað ég og gerði.
En núna er ég leiðsögumaður og mér finnst kaupið lélegt en finnst þetta greinilega andskotakornið of skemmtilegt til að segja þvert nei þegar mér eru boðnar ferðir.
Og lendir arðurinn kannski allur í vösum greifanna sem taka meinta áhættu af fyrirtækjarekstri? Jæja, ég á eftir að lesa greinina í Viðskiptablaðinu og sjá uppleggið í þessari frétt. En mikið vona ég að ferðaþjónustan braggist öllum til hagsbóta. Öllum. Og í leiðinni má laga klósettmálin.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.