Miðvikudagur, 1. ágúst 2012
Leiðsögumenn og dagpeningar - eða ekki
Netútgáfa DV er ekki sú sama og prentútgáfa. Ég er bara búin að sjá þá skemmri um frían mat handa leiðsögumönnum og þykist vita að það vanti helling í fréttina sjálfa.
Sem leiðsögumaður vildi ég allra helst að svona umræða leiddi til frjórri umræðu um þessi mál almennt. Af hverju fá leiðsögumenn ekki dagpeninga þegar þeir eru langt að heiman og kaupa matinn sinn sjálfir? Hversu mikið er um að leiðsögumenn hafi pissustopp þar sem ekkert er skilið eftir annað en óþrifnaður? Ég hef ekki sagt við mína farþega sem fara ókeypis á klósettið hingað og þangað að það sé kurteisi að kaupa eitthvað í staðinn en reynsla mín er að þeir geri það. Og ég veit að sumir leiðsögumenn vekja athygli á þessu. Það er vel. Af hverju ætti sjoppueigandi að vilja fá 30 pissandi túrista sem vinka í þakklætisskyni? Vildir þú vera í sporum þess manns?
Á mörgum fundum í Félagi leiðsögumanna eru klósettmál rædd af því að það er hluti af grunnþörfum fólks að koma frá sér umframefni. Víða erlendis er rukkað fyrir klósettferðir enda þarf að kaupa pappír og hreinsiefni, borga rafmagn og laun - og þetta er ekki vinsælasta starfið í stéttinni.
Ég stoppa aldrei með farþega mína einhvers staðar af því einu saman að ég fæ eitthvað í staðinn. Ég sver það. Þótt launin séu lág finnst mér þetta ekki leiðin til að heyja kjarabaráttu. Þetta er þjónustuhlutverk og þegar starfið fer að snúast um mig fer ég annað. Og ég hef samt ríka stéttarvitund.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.