Laugardagur, 11. ágúst 2012
407 milljónir
Það yrði mér ofviða að borga allan hallarekstur Hörpu og það þótt við tölum bara um eitt ár, 407 milljónir króna, en ég man ekki betur en að einstaklingar eða fámenn fyrirtæki hafi á undanförnum mörgum árum fengið afskrifaða milljarða. Einstaklingar hafa fengið árlegan taprekstur Hörpu til láns mörgum sinnum og ekki verið borgunarmenn fyrir láninu.
Þegar hin ógurlega skuldastaða Hörpu kemst til tals fæ ég á tilfinninguna að ekki sé einu sinni talið henni til tekna að hún hefur kannski aukið og mun kannski auka ferðamannastrauminn sem menn vilja svo gjarnan auka. Tekjur ferðaþjónustunnar eru ekki alls staðar beinar heldur einmitt óbeinar. Fleiri tónlistardiskar eru seldir, fleiri hringferðir, meiri hótelgisting, meiri ís, fleiri flugferðir koma til vegna þess að menn komast hingað á ráðstefnur og segja frá heima hjá sér.
Hversu margir kaffibollar eru seldir ferðamönnum? Eða hversu margir skammtar af skötusel sem ég þreytist ekki á að mæra við mína túrista? Seeteufel, ljótur en svo dásamlega bragðgóður.
Þessir útreikningar eru ekki allir einfaldir en væri ekki hægt að hætta við að afskrifa hjá einu sjávarútvegsfyrirtæki og hætta að væla yfir taprekstrinum á Hörpu? Hins vegar trúi ég á betri rekstur og minni halla, t.d. með því að slökkva ljós og prenta færri efnisskrár fyrir ruslafötuna. Þetta er bara gisk út í sortann, ég þekki ekki reksturinn á Hörpu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.