Þriðjudagur, 28. ágúst 2012
Rútuferðir og hausatalningar
Eftir að farþeginn týndist í Eldgjá um helgina hefur mikið verið skrafað um vinnubrögð leiðsögumanna, fararstjóra og bílstjóra. Ótrúlega margir hafa gargað sig hása og gagnrýnt þann sem ber ábyrgðina. Ég held að fæstir viti um hvað þeir eru að tala og ég þykist hafa sannreynt það á rölti mínu í dag. Sumt fólk heldur til dæmis skilyrðislaust að alltaf séu nafnalistar í för þegar hópferðabílar fara út úr bænum.
Nei, í áætlunarferðum með til dæmis Kynnisferðum og Allrahanda er allt eins fólk sem kaupir sig í ferðina rétt áður en hún hefst. Í stoppunum er bílstjórinn bara með fjöldann. Þarna einu sinni taldi einn bílstjóri vitlaust og ótrúlega margir dæma hann, alla bílstjórastéttina og gott ef ekki ferðaþjónustuna eins og hún leggur sig.
Já, ég pirraði mig yfir þessu í dag og þá fékk ég að heyra: En þetta er svo fyndið.
Ég get rifjað upp írafárið sem varð þegar hundurinn Lúkas hvarf og fjöldi fólks veittist að hugsanlegum geranda. Ég get líka rifjað upp þegar ég ætlaði að ganga á Fimmvörðuháls fyrir rúmu ári, vindurinn snerist, við létum vita af okkur, björgunarsveit var ræst, við létum aftur vita af okkur og við fengum nett samviskubit yfir að hópi manna hefði verið gert rask. Björgunarsveitir vinna frábært starf og eiga ekkert nema hrós og virðingu skilið - en stundum verður mönnum á.
Mér finnst ekki svona fyndið þegar fólk gefur sér algjörar staðleysur og reynir ekki að velta fyrir sér hinu sanna í málinu.
Nei, þá vil ég heldur hlæja að einhverju skemmtilegu. Andsk.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.