Föstudagur, 5. október 2012
Krimmar með áherslu á vinnugleði
Nú er ég búin að lesa þrjár bækur um Harry Hole eftir Jo Nesbø. Ég hef eitthvað fylgst með breska þættinum um kvenlögreglumennina og horfi - auðvitað - alltaf á dansk-sænska þáttinn Brúna og mér finnst það ágerast að umræðan snúist um vinnugleði og vilja/viljaleysi til að finna hinn seka og komast til botns í málinu.
Ég kláraði Rauðbrystinginn hans Nesbøs í gær og þar er til dæmis sálfræðingur sem hefur yndi af starfinu sínu þótt það varpi ljósi á mikinn viðbjóð og mannlega breyskleika. Þar fyrir utan er auðvitað Harry sjálfur ómögulegur maður ef hann fær ekki að klára mál. Þetta ætti að vera sjálfsagt en svo virðist sem margir hafi lítinn metnað í vinnu.
Heita þær ekki Scott og Bailey, þær bresku? Vinkona annarrar var myrt og þess vegna gekk hún í lögregluna. Hin hafði einhverja góða ástæðu til að verða lögreglumaður og nú er hún búin að setja sér það fyrir að fara að slugsa, gera eins og skussarnir en þær vita og við vitum að hún getur ekki dregið lappirnar í vinnunni. Hún er bara orðin svo langþreytt á metnaðarleysinu að hún vill láta reyna á hvort hún getur slegið slöku við og mögulega orðið eitthvað minna pirruð á samstarfsfólkinu.
Það ætti að vera sjálfsagt mál að fólk standi sig í vinnu, ekki síst þegar fólk menntar sig sérstaklega til einhvers starfs, velur það og hefur áhuga á því sem vinnan felur í sér, áhuga á að ná árangri. Af hverju er það umtalsefni þegar fólk gerir einmitt það?
Og nú finnst mér krimmaafþreyingin flétta þetta í æ meira mæli inn í söguþráðinn sinn. Kannski skjöplast mér samt, kannski er þetta hjá Morse og Derrick og Lewis og Matlock og Wallander og Lizu Marklund og Arnaldi og Yrsu.
Af hverju vandar fólk sig ekki við vinnuna?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.