Miðvikudagur, 10. október 2012
Hækkun virðisaukaskatts í ferðaþjónustu
Ég er bara maur í ferðaþjónustu, tek enga áhættu, skipulegg ekkert og dreg engan að landi. Sennilega hef ég þá ekki rétt til þess að hafa afgerandi skoðun á fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts á gistingu. Enda dettur mér það ekki í hug, hef bara óafgerandi skoðun á málinu.
Það sem ég skil síst og minnst og eiginlega bara ekki er að ferðaþjónustan kvartar og skælir undan öllu. Samt hefur vöxtur orðið þar mikill. Þegar brúna yfir Múlakvísl tók af í fyrra kveinuðu ferðaþjónar austan megin árinnar yfir MILLJARÐATAPI. Samt höfðu þeir aldrei fagnað milljarðagróða.
Ferðamönnum hefur fjölgað á Íslandi ár frá ári, stöðugt í mörg ár. Vilja ferðaþjónar í alvörunni að við förum skarpt upp í heila milljón og svo í þremur þrepum upp í eina og hálfa? Af hverju reynum við ekki frekar að gera þetta almennilega, búa vel um fjölsótta og viðkvæma ferðamannastaði? Er ekki oft talað um að fá ferðamenn til að staldra lengur við, að hver og einn eyði meiru, fá ríka fólkið? Jú, yfirstrumpar ferðaþjónustunnar hafa talað á þeim nótum. Getur ekki verið að það verði núna tilfellið ef gisting verður dýrari?
Ég man líka að þegar virðisaukaskatturinn á mat var lækkaður úr 24,5% í 7% lækkaði verð ekkert á veitingastöðunum. Þá höfðu ferðaþjónar engar áhyggjur. Eða var það?
Þrátt fyrir að vera leiðsögumaður fer ég ekki oft hringinn með túrista. Engu að síður hef ég gert það og stundum hef ég átt að gista á Egilsstöðum og verið send í Neskaupstað. Er það vegna þess að það koma engir túristar? Nei, það er af því að þeir eru svo margir. Núna, meðan verð er svona lágt, gæti ég spurt hvort erillinn sé mikill á veturna. En ég þarf þess ekki, ég veit að svo er ekki. Og það er ekki út af verðinu, það er út af veðrinu og fylgifiskum þess.
Hins vegar finnst mér of bratt að hækka verðið á næsta ári og mér finnst að til þess bærir aðilar ættu að íhuga lægri virðisaukaskatt á veturna til að reyna þó að fjölga túristum í norðurljósaferðum og atburðatengdri ferðaþjónustu (Airwaves og önnur tónlist kannski helst).
Að lokum verð ég að segja að mér finnst framkvæmdastjóri SAF hitta einhverja nagla á höfuðið í grein í Fréttablaðinu í dag sem ég varð að tengja á í fyrstu línu pistilsins.
Athugasemdir
Eða hafa TAX FREE kerfi yfir veturinn með gistingu, sem ferðamenn gætu þá fengið að hluta tilbaka á leið úr landi ? Góð hugmynd að hafa annað vsk þrep yfir vetrarmánuðina.
Tel að það eigi að hækka vsk-inn á ný en tek undir að fyrirvarinn er of stuttur. Sé engan akk í því að styðja lág laun í ferðabransanum og að hafa þá sem flesta. Betra að hafa færri sem skila meiru og að störf við þrif, matseld, þjónustu og fleira verði mjög góð um leið. Vsk lækkun á mat...því miður var það gert, hirtu allt í hvelli, en höfðu farið fram á að það yrði lækkað vegna ferðamanna...man að Árni Matt var þá fjármálaráðherra og var svekktur og sagði að menn myndu hugsa sig tvisvar um áður en vsk yrði lækkaður í þeirra geira.
Hjördís Vilhjálmsdóttir, 10.10.2012 kl. 22:16
Já, það veitir ekki af að hækka launin „á gólfinu“.
Berglind Steinsdóttir, 11.10.2012 kl. 20:22
Eða lækka hæstu launin amk eitthvað smá, svo verðið á þjónustunni hækki ekki ?
Hjördís Vilhjálmsdóttir, 11.10.2012 kl. 23:32
Það er alltaf vandmeðfarið að ætla sér að lækka laun í krónutölu. Hvað erum við að tala um? Nokkra toppa sem eru með milljónir á mánuði? Í milljarðasamhenginu er ég ekki viss um að það skipti mestu máli. Ég vildi að menn færu almennt betur með, spöruðu yfirbyggingu, boðsferðir og önnur boð, frítt þetta og frítt hitt. - Tek svo fram að ég þekki ekki til í efstu lögum, þetta er frekar tilfinning.
Svo er „arður“ orðinn neikvæður af því að nýjustu dæmin (Orkuveitan) sýna að menn taka (erlend) lán til að borga út arð. Hvað er það?
Berglind Steinsdóttir, 14.10.2012 kl. 16:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.