Sunnudagur, 21. október 2012
Ég varð undir ...
... í einni spurningu. Eða þannig.
Ég nýtti mér kosningarrétt minn og fór á kjörstað í gær. Miðað við tölurnar sem hafa verið birtar var hópurinn ekki einsleitur að öðru leyti en því að fólk var heldur jákvætt. Sumir vildu ekki leggja frumvarp stjórnlagaráðs til grundvallar en vildu fá skýr ákvæði um eignarhald á náttúruauðlindum. Sumir kjósendur vildu halda inni ákvæði um þjóðkirkju og sumir vildu jafnt vægi atkvæða.
Ég hlíti niðurstöðu þeirra sem létu sig málið varða og ef ég væri þar stödd í lífinu að ég þyrfti, vinnu minnar vegna, að taka afstöðu til þessara spurninga myndi ég taka tillit til ráðgjafarinnar, líka í sambandi við þjóðkirkju sem ég sagði mig úr fyrir margt löngu.
Mér ofbýður hvað fólk spáir miklu meira í hvað fólk sem fór í sund, fór í fjallgöngu, horfði á fótbolta, var í útlöndum, gleymdi sér við að borða sushi, rataði ekki á kjörstað eða lét sér á sama standa um kjördag vildi sagt hafa með þögn sinni en við hin sem gerðum upp hug okkar og greiddum atkvæði.
Það eru ótrúlega spennandi tímar framundan og ég hlakka mikið til að sjá hvernig úr spilast.
Athugasemdir
Flestir bara tóku ekki þátt í ólöglegu rugli, enda verður ekkert gert með þetta eins og Sigurður Líndal leggur til.
Hergeir (IP-tala skráð) 30.10.2012 kl. 22:29
Þú leggur meira upp úr forminu og ég meira upp úr efninu. Það er okkar val og ég vona að við fáum nýja stjórnarskrá vorið 2013. Ég vonast líka eftir skýrari framtíðarsýn, meiri ábyrgðarkennd og jafnari lífskjörum, meiri meðvitund og minna sinnuleysi.
Berglind Steinsdóttir, 30.10.2012 kl. 23:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.