Fimmtudagur, 25. október 2012
Niðurgreiðsla og önnur (meint) hlunnindi
Í vikunni hef ég orðið vör við umræðu um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar á landsbyggðinni. Reykvískur pólitíkus vakti hana upp og spurði sisona: Eiga Reykvíkingar að greiða niður húshitun á köldum svæðum?
Ég er Reykvíkingur og mér finnst ekki eðlilegt að við greiðum niður húshitun eða matarverð í öðrum landshlutum. En að sama skapi finnst mér ekki að ég eigi að fá heim til mín hlunnindi sjómannsins sem velur kalda húshitunarsvæðið og gjöfulu fiskimiðin sem hann getur sótt.
Það er ekki fræðilegur möguleiki að jafna allt. Sumir fæðast fallegir, sumir gáfaðir, sumir heilbrigðir og það er ekki hægt að jafna öll þau gæði. Fólk á að hafa sömu tækifæri til náms og góðs lífs en það er ekki hægt að jafna allt.
Að auki eru það góð rök að ef það er viðbjóðslega dýrt að kynda á Tálknafirði eða Stöðvarfirði gæti það verið hvati til að finna aðra orkugjafa, t.d. með því að virkja hafstraumana eða hektópaskölin.
Eftir grufl og umræður gæti komið á daginn að það væri ósanngjarnt að hitajafna ekki milli höfuðborgarsvæðis og Vestfjarða og þá er að taka því. En ekki umræðulaust og út frá tilfinningum einum saman.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.