Sighvatur er að djóka um sjálfhverfurófið

Það hefði verið rosalega auðvelt að missa af sjálfhverfu-greininni hans Sighvats í Fréttablaðinu á laugardaginn. Alveg er ég viss um að margar sjálfsupphafnar greinar eru birtar í blöðunum án þess að maður gefi þeim gaum.

Sighvatur stendur á sjötugu, er sem sagt enn á besta aldri, og er áreiðanlega ágætlega gefinn. Ég veit ekkert hvort hann er almennur húmoristi en mér sýnist hann grínast mjög myndarlega í þessari grein.

Dæmi:

Þetta er kynslóðin sem ól af sér útrásarvíkingana ...

Lesendur hafa reiknað það út að hann sé að tala um Reykvíkingana sem fæddust á árabilinu 1967-1982. Hverjir eru útrásarvíkingarnir? Ég held að ég þurfi ekki að nafngreina þá en þeir eru einmitt flestir fæddir á sjöunda áratugnum. Kynslóðin sem ól af sér útrásarvíkingana er þá fólkið sem fæddist 20-40 árum fyrr, 20-40 árum fyrir 1970 svo ég námundi. Er það ekki?

Sighvatur er að tala um sjálfan sig.

Það er hann sjálfur, fæddur 1942, sem er á sjálfhverfurófinu. Ég þekki mann fæddan 1950 sem tók námslán fyrir allri háskólagöngunni og er fyrsti maður til að viðurkenna að hann borgaði ekki nema brotabrot til baka, verðbólgan át verðgildi lánsins.

Svo þekki ég mann af kynslóðinni á undan sem borgaði strangt til tekið aldrei til baka byggingarkostnaðinn af sömu ástæðu. Ég veit ekki hvað 1942-módelið fékk fyrir lítið. Sighvatur gæti tíundað það.

Þessi kynslóð sér ekkert fréttnæmt í því að hópur gamalmenna hafi tapað aleigu sinni við að reyna að tryggja sér verndarskjól í ellinni með viðskiptum sínum við Eir.

Ég veit ekki alveg hvaða húmor er hér á ferðinni. Ef ég leyfi höfundi að rása svolítið í kynslóðunum og ímynda mér að hann ímyndi sér að fólk á aldrinum 30-45 ára láti sér í léttu rúmi liggja það sem er alveg nýnýnýkomið í ljós, sem sagt að herramaður af hans kynslóð svaf á verðinum, get ég alls ekki skilið af hverju hann hrapar að þeirri niðurstöðu. Er fólk búið að tjá sig svo mikið um það? Ekki þekki ég eina einustu sálu sem hlakkar yfir óförum íbúa á Eir eða hefur ekki samúð með því hlutskipti að missa inneignina og hugsanlega búseturéttinn. Hvaða galskapur er þetta í höfundi?

Þessi sjálfhverfa kynslóð sér ekki heldur neitt umræðuvert í því, þó íbúar allra Raufarhafna þessa lands gangi slyppir og snauðir frá húseignum sínum sem í mörgum tilvikum kostuðu þá miklu meira fé að byggja vegna hás flutningskostnaðar aðfanga en sjálfhverfu kynslóðina á höfuðborgarsvæðinu.

Drepið mig ekki alveg. „Sjálfhverfa kynslóðin“ á formæður, forfeður og rætur að rekja út á land.

Er ekki Sighvatur bara að tala um örfáa menn sem átu gullslegið risotto, flugu stuttar og lengri vegalengdir einir í þotunum sínum, slógu menn um milljarða sem þeir (sem lánuðu) áttu ekki, fengu lánað fyrir iSímum og fannst ekki taka því að endurgreiða, keyptu flugfélög og seldu banka í svefni, slógu sig til riddara og veittu sér fálkaorður?

Sighvatur slær úr og í kynslóðum en sannleikurinn er sá að kynslóðin sem hann er uppteknastur af er ekki bundin við ákveðið árabil.

En umræðan gæti orðið skemmtileg í skammdeginu ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband