Miðvikudagur, 14. nóvember 2012
Karamazov-bróðirinn
Ég tók nýlega til mín áskorun um að lesa góðu bækurnar fyrst, áður en sá tími rynni upp að maður hefði ekki tíma til að lesa bestu bækurnar. Já, og ég lagði frá mér reyfarann og dró fram Karamazov-bræður Dostóévskíjs sem ég hafði hummað fram af mér. Og það er mjög skrýtið að ég hafði ekki byrjað fyrr á henni þar sem Glæpur og refsing er alveg stórkostleg bók. Ég las þá bók fyrir næstum mannsaldri (eða þannig) og í minningunni engist Raskolnikoff um, sekur en sloppinn, með samviskubit en án þess að finnast hann þurfa þess, sveittur, kaldur, fátækur, umkomulaus, maðurinn sem gerði allri borginni greiða en getur ekki gert tilkall til hróssins af því að verknaðurinn var glæpur gagnvart lögum. Gagnvart lögum, sko, en kannski ekki siðferðinu eða hinu góða í manninum.
Ég tárast næstum við þessa góðu minningu.
Karamazov-bræðurnir eru síðastir í höfundarverki Dostóévskíjs og ógurlegt meistaraverk - skildist mér. En eitthvað er móttakarinn þá orðinn slappur hjá mér því að eftir sársaukafullar 40 blaðsíður af öðrum bróðurnum og börnunum hans sem hann gleymdi hjá þjónunum sem ólu önn fyrir þeim meðan hann slarkaði gat ég ekki meir. Frásögnin er öll í þátíð, í skelfilegum fjarska, og það eina sem er nálægt er hinn uppáþrengjandi sögumaður.
Dæs.
Ég ætla samt að leggja til atlögu við Fávitann áður en ég verð orðin of gömul og fúin til að lesa bestu bækurnar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.