Fimmtudagur, 15. nóvember 2012
Föstudagsfrídagar
Kannski er ég óvenjulegur launþegi. Ég þekki það að vera í fastri vinnu með reglulegum kaffitímum, mismunandi álagi og mánaðarlegum greiðslum. Ég þekki það að vera í óreglulegri vinnu með skóla og ég þekki það að taka tarnir, t.d. yfir sumarið.
Ég hef aldrei verið atvinnurekandi en hef hins vegar unnið náið með eiganda í litlu fyrirtæki.
Kannski er ég með fátæklega stéttarvitund en mér finnst fráleitt, segi og skrifa, að færa til árvissa frídaga sem eru bundnir dagatalinu til að fjölga þeim dögum sem launþegi er í burtu á launum. Hvernig er hægt að halda upp á 1. maí þann 7. maí af því að það er mánudagur eða föstudagur? Stundum eru jól lengri og stundum styttri. Stundum er meira gaman og stundum minna gaman. Mér finnst það eðlilegt.
Alveg eins og mér finnst eðlilegt að launþegi sé heima þegar hann er veikur eða barnið er veikt. Og sinni vinnunni í vinnunni á vinnutíma.
Ef lífið væri allt úr rjóma yrðum við leið á honum. Vinnuveitandi á líka rétt og fulltrúar atvinnurekenda og launþega eiga að geta náð saman um kjarasamninga sem eru ásættanlegir fyrir báða aðila. Inni í því eru frídagar.
Sem launþegi reyni ég að setja mig í spor yfirmanns míns. En kannski er ekkert að marka mig því að ég hef einfaldlega ekki undan neinu að kvarta.
Nema SAF ...
Athugasemdir
Utan internetsins hefur verið gerð gangskör að því að sannfæra mig um að þessi lagasetning sé sérsniðin að lífi verslunarfólks og kannski annarra þeirra sem eru með mikla viðveruskyldu. Jamm, ég skal hugsa þetta aðeins áfram.
Nei, frumvarpið miðar að því að færa fimmtudagsfrídaga yfir á föstudag eða mánudag til að lengja helgarnar nema þegar um er að ræða 1. maí sem á að vera fyrsta mánudag í maí og svipað með 17. júní sem á að bera upp á virkan dag og ef sumardagurinn fyrsti skyldi lenda á sama fimmtudegi og skírdagur á að bæta fríi við á miðvikudeginum á undan. Mér finnst ennþá að þetta eigi að fara inn í kjarasamninga og ég held að margt launafólk sé með fullvonda samninga.
Jú, ég er líka búin að heyra að þetta tíðkist í öðrum löndum. Hva, ekki er allt betra í öðrum löndum en hér.
Berglind Steinsdóttir, 18.11.2012 kl. 21:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.