Laugardagur, 1. desember 2012
Rétthugsun
Nú þarf ég aðeins að hugsa málin og reyna bæði að stíga út fyrir minn þrönga heim og þægindarammann.
Uppáhaldsþátturinn minn í útvarpinu hefur verið sleginn af vegna óviðurkvæmilegs viðtals. Þótt ég hafi mikið dálæti á Harmageddon næ ég frekar sjaldan að hlusta því að hann er kl. 15-17.30 virka daga, en ég næ góðum bútum svona tvisvar til þrisvar í viku. Sumt finnst mér sossum hundleiðinlegt hjá Mána og Frosta, sérstaklega þegar þeir tala lengi og mikið um íþróttir, t.d. knattleik eins og mig minnir að Máni kalli fótbolta.
Það sem Máni og Frosti gera vel er að ýta alls staðar á mörkin, í pólitík og trúmálum mest sem ég hef heyrt. Stundum eru þeir líka með svo brjálæðislega fyndin leikin atriði sem ég hélt að væru ekki leikin meðan ég vissi ekki betur. Mér er ennþá minnisstæðast þegar annar þeirra hringdi inn og þóttist vera venjulegur bílisti sem hefði lagt í fatlað stæði við Kringluna því að hann þyrfti að komast í ÁTVR og fannst að fatlaðir gætu vel lagt í önnur stæði, það væri nóg af þeim. Og nú þyrfti þessi sem hringdi inn (var líklega Frosti) að borga 10.000 fyrir stöðubrot.
Ég lá í kasti yfir þessu (hljóð)broti á sínum tíma.
Í síðustu viku léku þeir sér með Schengen og annar þóttist halda að framburðurinn væri Skengen. En aðalefnið var svo sem hvort útlendingar fengju að koma óhindrað yfir landamærin eða ekki.
En að efni máls, femínismanum og viðtalinu við SirMills sem ég einmitt heyrði á rauntíma. Mér þótti það bjánalegt og svo gleymdi ég því. Af hverju var mér ekki misboðið? Meintur listamaður var ögrandi og hreinlega hallærislegur og ég átti svakalega auðvelt með að leiða hjá mér það sem hann þóttist standa fyrir. En þar stendur kannski einmitt hnífurinn í kúnni. Ég get áttað mig á þessu en, hvað á maður að segja, óharðnaðir unglingar, ungar konur kannski, geta tekið svona meiningar nærri sér. Að vonum. Þannig að ég held að Harmageddon hafi ekki veitt af að fá áminningu. Stærsti hópurinn sem hlustar er trúlega fólk sem á ekki að þurfa að hlusta á listamann eins og SirMills - þótt ég skilji þetta sem ádeilu eða arfalélegan brandara.
Og þetta leiðir mig aftur að Hraðfréttum sem mér þykja skemmtilegar. Símaauglýsingin, rödd símafyrirtækisins og allt það fór gjörsamlega framhjá mér sem dulin auglýsing en kannski verð ég samt fyrir áhrifum (ég er mjög meðvituð um að versla allajafna við litla samkeppnisaðilann) og þótt ég verði kannski ekki fyrir áhrifum er ástæða til að vera á varðbergi gagnvart dulbúnum auglýsingum.
En svo skil ég ekki hvernig stendur á því að lögmaður sem núna er kominn í afgerandi þingframboð getur svarað játandi í útvarpinu (mig minnir Harmageddon) spurningunni: Ef skjólstæðingur þinn er sekur, hann veit það og þú veist það, en hann heldur að hann geti komist upp með það, segirðu honum þá að ljúga, að hann hafi ekki gert það sem borið er á hann? án þess að allt fari á annan endann. Er sem sagt viðurkennt að besta vörnin sem allir eiga rétt á feli í sér að bæði sakborningur og lögmaður hans ljúgi, t.d. til um ofbeldisglæp eða auðgunarbrot, ef sá seki er líklegur til að sleppa við refsivöndinn?
Af hverju er það viðurkennt?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.