Fimmtudagur, 20. desember 2012
Að virkja eða ekki að virkja
Ég trúi aðallega á jólasveininn, álfa og tröll enda löggiltur leiðsögumaður. Tjah, eða lærður leiðsögumaður, löggilding tíðkast ekki enn meðal leiðsögumanna nema maður lóðsi menn um slóðir hreindýra eða gefi bátum merki.
Ég trúi ekki sérstaklega á virkjanir eða ekki virkjanir og þótt Hörður Arnarson hjá Landsvirkjun hafi opinberað raforkuverð sem áður var á huldu hef ég aldrei verið alveg sannfærð um - eða trúuð á - að Kárahnjúkavirkjun hafi verið arðbær. Ég held að ég trúi miklu frekar á græna stóriðju, beint frá býli, lífrænar döðlur - og störf í kringum þennan iðnað - en áliðju.
Og nú las ég grein heimamanns um hugsanlega fyrirhugaða virkjun í hinum fátæka Skaftárhreppi. Ég get ekki hrakið eitt orð sem hann segir.
Svo rifjast skyndilega upp fyrir mér þegar brúin yfir Múlakvísl gaf tímabundið upp öndina í hitteðfyrra og ferðaþjónustan á svæðinu grét sáran og sagði: Við töpum milljörðum.
Ef menn tapa milljörðum á því að brú tekur af í eina viku hljóta þeir að græða marga milljarða allar þær vikur sumarsins sem brúin er í lagi.
Ég heyrði líka Grím Atlason tala um Iceland Airwaves um daginn. Sú hátíð er mikil lyftistöng fyrir atvinnulífið á Íslandi, tónlistarstóriðja. Og undanfarið hef ég svolítið verið í vetrarfjallgöngum. Veturinn í vetur hefur verið einstaklega gjöfull, guðdómleg birta í ferð eftir ferð, svalt og fallegt. Söluvara. Börkur, vinur minn í bransanum, er áskrifandi að norðurljósunum. Söluvara OG seld vara.
Náttúran er nútíðin og framtíðin. Og hugvitsmenn geta búið til sultu úr arfa og fíflum án þess að fórna ferkílómetrum til langrar framtíðar.
Af hverju má ég ekki fá íslenskar gulrætur allt árið?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.