Miðvikudagur, 26. desember 2012
Ósýnilega þýðingin
Nei, þýðingin á Órólega manninum eftir Henning Mankell er ekki ósýnileg:
Eftir eigið haust kemur annarra vor.
Ég ætla að hringja til hennar og segja henni að láta aldrei aftur í sér heyra.
Fyrri línan er á bls. 294 og sú seinni á bls. 298. Mér finnst fyrri línan flott eins og margar aðrar og ólíkar í bókinni. Seinni línan er margendurtekin í breyttri mynd. En við hringjum ekki til fólks, er það nokkuð? Nei, við hringjum í fólk. Og í málumhverfi mínu er ekki talað um að láta í sér heyra (höra av sig) heldur hafa samband eða láta vita. En í Ósýnilega manninum hringja menn holt og bolt og láta endalaust í sér heyra í 1. persónu.
Annað og ekki betra er að hálf bókin er endurtekið stef um að Kurt Wallander sé orðinn sextugur og farinn að kröftum, úthaldslítill og sjái fram á einmanalega elli.
Að öðru leyti er söguþráðurinn sá að fyrrverandi sjóliðsforingi hverfur og Kurt verður upptekinn af því vegna þess að sá maður er verðandi tengdafaðir dóttur hans. Rannsóknin er ekki í hans umdæmi og þess vegna ber honum ekki að reyna að komast til botns í málinu. En hann vill vita. Samt reynir hann að vera í sumarfríi og fer í langa göngutúra með hundinn sem hann er nýbúinn að fá sér og lætur engu að síður nágrannann passa lon og don. Og hann hefur áhyggur af að hann sé búinn að bíta af sér vinina. Svo hverfur eiginkona sjóliðsforingjans, verðandi tengdamóðir Lindu. Það veldur Kurt hugarangri og svo sefur hann út og hefur áhyggur af að enginn muni vilja umgangast hann þegar hann verður að fara á eftirlaun eftir nokkur ár.
Auðvitað ætla ég ekki að rekja söguþráðinn frekar. Mér hefur oft þótt gaman að lesa Henning Mankell en þessi mikla áhersla á líðan aðallögreglumannsins umfram glæpinn sem á að kryfja skemmdi fyrir. Og meinlokan í þýðingunni létti mér ekki lundina.
Samt alveg gleðileg jól, sko.

Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.