Miðvikudagur, 2. janúar 2013
Fálki bjálki og björgunarsveitirnar
Það er skemmtileg tilviljun að tvisvar á ári skuli einmitt 10 vandaðir einstaklingar eiga skilið að fá fálkaorðuna á Íslandi. Eina huggun mín er að ég kannast bara við tvo einstaklinga núna og þá er von til þess að útvaldir hafa fengið hana í alvörunni fyrir að gera eitthvað af hugsjón og ekki bara fyrir að mæta í vinnuna sem ég hef svo lesið um í blöðunum.
Einhvern veginn finnst mér Reykvíkingur ársins fanga betur þessa viðurkenningarhugsun og það endist sennilega bara í nokkur ár, þá verður sú viðurkenning líka orðin að stofnun.
Núna um áramótin hefur mikið verið skrafað um björgunarsveitirnar og kaup á flugeldum, fólk verið hvatt til þess að skipta við björgunarsveitirnar úr því að þær væru ekki á fjárlögum. Og sumir hafa hvatt til þess að þær færu á fjárlög. Þá hafa aðrir orðið til þess að benda á að slökkvilið (sem einu sinni var víst skipað sjálfboðaliðum) og lögreglan væru á fjárlögum og sættu þar miklu fjársvelti og niðurskurði.
Almennt séð finnst mér að almannaþjónusta eigi að vera greidd af ríkinu, sköttunum okkar, en sá kraftur sem einkennir björgunarsveitirnar sem sjálfsprottin samtök er svo fagur og verðskuldar svo mikla samkennd frá okkur hinum sem ekki erum í þeim að við verðum bara að styrkja þær beint.
Þetta finnst mér eftir að hafa hugleitt málið um áramótin.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.