Mánudagur, 19. febrúar 2007
Stokkum upp í skólakerfinu
Ég var einu sinni leiðbeinandi í grunnskóla og fannst það svo erfitt að ég ákvað að mennta mig til að verða kennari. Ég fékk nefnilega engan bjánahroll, bara áhuga, fór í kennslufræðina og kenndi svo nokkra vetur í menntaskóla.
Ég veit að ég var að sumu leyti óöguð, ekki í kennslunni en í undirbúningi og yfirferð. Ég held að það hafi að miklu leyti helgast af því að að ég hafði enga eiginlega vinnuaðstöðu, eitthvert skæni fyrir skrifborð og enga eigin tölvu. Fyrsti veturinn var 1995-6 og þá var tölvupóstur a.m.k. ekki orðinn almennur þannig að maður vann svo sem fyrst og fremst verkefnin á tölvuna. Og sat síðan heilu kvöldin við eldhúsborðið með stíla, ritgerðir og rauð augu.
Ástæðan fyrir að ég söðlaði um og fór í annað var að töluverðu leyti námsmatið. Ég veit að þetta hljómar eins og afsökun en mér þótt hroðalega leiðinlegt að reikna út einkunnir, halda utan um þær allan veturinn og þurfa síðan fyrir jól og á vorin að rökstyðja einkunnagjöfina með því að draga upp verkefnaskilin og tíunda litlu atriðin til að útskýra 7 í stað 8. Þegar svo vildi verkast.
Við Ásgerður sem kenndum einn vetur saman vorum (og erum held ég) sammála um að það væri full ástæða til að stokka upp í kerfinu. Menn fárast yfir löngum fríum kennara, en það er ekki eins hlaupið að því fyrir kennara að lengja hjá sér helgi og skreppa í borgarferð yfir vetrartímann eins og margar aðrar stéttir. Kennarar eru í langa fríinu á dýrasta ferðatíma. Kennarar panta tíma hjá lækni, tannlækni, tíma fyrir börnin líka þegar þeir eru ekki í kennslustund - af því að þá eru þeir í því sem margir kalla frí en er í raun undirbúningstími. Og undirbúningurinn græjar sig ekki sjálfur hjá metnaðarfullum kennurum. En auðvitað eru skussar í stéttinni. Of margir einblína á þá.
Ég myndi vilja sjá einhverjar breytingar í kerfinu. Mér finnst að kennarar ættu að fá góða vinnuaðstöðu í skólunum og hafa vinnuskyldu þar kl. 8-16 eða eitthvað þess háttar. Þá gætu menn auðveldar borið saman bækur sínar, unnið verkefni saman og ég hefði a.m.k. átt auðveldara með að klára vinnuna á eðlilegum tíma í stað þess að eyða of miklum tíma illa.
Ég hefði viljað eiga möguleika á að kenna tímana fyrir Pál ef hann hefði farið yfir verkefni fyrir mig. Ég hefði viljað geta skipt við Brynjólf og hann kennt Eglu í báðum bekkjum en ég ritun í báðum. Mér finnst ekki nauðsynlegt að sami kennari semji verkefni, leggi fyrir og meti til einkunna. Ekki nauðsynlegt, hmm.
Það sem ég vildi sjá núna áður en menn setja undir sig hornin í kjaraviðræðum er fersk nálgun. Og að lokum verð ég að segja að ég tróð ekki illsakir við nokkurn samkennara ...
Athugasemdir
Ég er óskaplega sammála þessu með Brynjólf og Pál. Mjög sammála því að kennarar eigi að hafa starfsaðstöðu í skólanum. Getur verið að skólastofur séu farnar að gegna því hlutverki, það er að vera skrifstofa kennara eftir að kennslu líkur.
Fjölmargir starfshópar eiga erfitt með að legnja frí til að komast í helgarferðir og tannlæknatímar eru alltaf vandamál. Hygg að þar séu kennarar ekki verst settir.
En það er þetta með endurmenntunina sem ég skil ekki ennþá. 105-150 tímar í endurmenntun á ári hverju er skylda segir bæklingurinn. Þar sem undirbúningstími fyrir kennslu og öll önnur umsýsla af slíku tagi er mjög naumt skammtaður tími, afhverju má ekki nota þessa tugi endurmenntunartíma í það? Í minni vinnu þá á ég rétt á launalausri endurmenntun í 10 vinnudaga á ári. Það er svo samkomulag við minn vinnuveitanda hvort hann tekur þátt í henni og á hvern hátt. Ef ég fer í enga endurmenntun, nú þá bara vinn ég eins og venjulega. Hvers vegna er þessu ekki háttað svona hjá kennurum... æ ég skil ekki.
Nú svo þarf ég daglega að skrá niður vinnutímana mína og hvað ég er að gera. Veit að mörgum hefur þótt það hinn versti dónaskapur þegar vinnuveitendur hafa farið fram á þetta en þetta venst bara mjög vel og er hið ágætasta sístem. Ég þekki ekki hvernig skólastjórnendur fylgjast með öllum þessum brotabrotum í vinnutíma kennara (1.23 tímar hér og 2.43 þar) né heldur hvernig þeir fá upplýsingar um endurmenntunina. Ef kennari nær ekki endurmenntunarskyldunni, er það þá dregið af laununum hans???? Æ ég skil ekki.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 09:04
Hey, ég er bara sammála þér, einkum þegar kaffitímayfirseta er skilgreind í 2,46 tíma og yfirferð verkefna í 9,49. Hins vegar eru kennarar að skila einkunnum um 10. júní og taka á móti nemendum í kringum 25. ágúst. Er gert ráð fyrir að þeir séu sumir næstum heilan mánuð í endurmenntun á hverju ári?
Berglind Steinsdóttir, 20.2.2007 kl. 09:11
Bæklingurinn góði segir 105-150 tímar í endurmenntun á ári sem að margir kennarar sinna yfir veturinn ofan á 42.86 vinnutímana sína á viku til þess að geta verið í lengra sumarfríi.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 09:38
Grefillinn, þessi bæklingur hefur ekki skilað sér til mín. Mig vantar ímynd kennaranna!
Berglind Steinsdóttir, 20.2.2007 kl. 23:28
Ég vil bæta þessu við: Mikilvægt er að lækka kennsluskyldu. Þá gæti kennarinn sinnt undirbúningi betur, verið frjóari í kennslu og sífellt bætt sig í kennsluaðferðum. Eins og málunum er háttað nú er lítill tími til endurmenntunar (og nánast ómögulegt á veturna, sérstaklega ef maður er með lítil börn). Það eina sem ég hef tími í er að fara yfir ritgerðir, verkefni og próf, búa til verkefni og próf og undirbúa kennsluna á annan hátt. Þar fyrir utan þarf að sinna nemendum með sérþarfir (t.d. lesblindu (búa til aukaverkefni)), senda veikum nemendum tölvupóst, vera í sambandi við foreldra, taka umsjónarnemendur í viðtal o.s.frv.
Nú finnst eflaust einhverjum hann heyra kvarttón í textanum og ég er að sumu leyti er ég að kvarta en auðvitað er starfið skemmtilegt; ég vinn með frjóum og skemmtilegum krökkum sem ég læri alltaf eitthvað af. Samstarfsmenn mínir eru líka frábærir og hjálpfúsir. Hins vegar er alveg ljóst að ég á fá kvöld frí (ákvað samt eftir fyrsta árið mitt í kennslu að taka mér alltaf frí á föstudags- og laugardagskvöldum nema mikil lægi við) og afar fáar helgar. Auðvitað er þannig farið með fleiri stéttir en þær fá yfirleitt greitt fyrir sína yfirvinnu. Ég byrja ekki að vinna 25. ágúst þegar nemendur mæta í skólann, ég byrja að vinna strax eftir verslunarmannahelgi og ég vinn til a.m.k. 20 júní. Jólafríin nota ég til að lesa mér til fyrir vormisserið. Ég sé ekki að mitt sumarfrí sé neitt lengra en annarra stétta og síst styttra en alþingismanna t.d. sem þó býsnast sumir hverjir yfir sumar- og jólafríum kennara.
Og hana nú!
(Fyrrnefnd) Ásgerður
Ásgerður (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 14:33
Þetta átti auðvitað að vera ... mikið lægi við ... og ...frjórri í kennslu. Nemendum mínum finnst sérlega skemmtilegt að finna fljótfærnisvillurnar mínar. Þessar voru fyrir þá!
Ásgerður (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 14:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.