Fimmtudagur, 3. janúar 2013
Að rökstyðja - eða ekki
Mér finnst áherslan á rök og málefni hafa verið gegnumgangandi í skólagöngu minni, hvort sem ég hef verið nemandi eða kennari. Að vísu dettur mér núna fyrst í hug undantekning þar á. Í ensku í 2. bekk í menntaskóla lásum við einhverja sögu um mann sem vildi helst flytja úr dreifbýli til höfuðborgarinnar en foreldrar hans vildu að hann tæki við búskapnum. Kennarinn spurði: Hvað á ungi maðurinn að gera? Ég man ekki lengur söguna svo gjörla en sagði að mér fyndist að hann ætti að gera það sem hugur hans stæði til, ef til vill með þeim rökum að hann yrði aldrei almennilegur bóndi ef hann hefði ekki áhuga á því hlutskipti.
Kennarinn: Nei, svarið er rangt.
En sem sagt, almennt séð hefur áherslan verið á rök og kennarar mínir verið til í að skoðanir nemenda væru aðrar ef einhverjar málefnalegar ástæður væru fyrir því. Og þannig minnist ég sjálfrar mín sem kennara og þannig held ég að ég sé þenkjandi.
Þess vegna hefur mér líka alltaf fundist dálítið sérkennilegt að þegar maður er ánægður, t.d. með bíómynd eða leiksýningu, gerir fólk sig bara ánægt með það svar en ef maður lýsir yfir óánægju er spurt hvað hafi verið að.
Þetta fór ég að hugsa þegar ég las beittan og meitlaðan pistil Sifjar Sigmarsdóttur í Fréttablaðinu áðan. Orðfæri í áramótaskaupinu sem tekið var beint úr athugasemdakerfi DV fór fyrir brjóstið á ýmsum áhorfendum. Það er ekkert skrýtið en vandinn er ekki miðillinn heldur fólkið sem talar svona og skeytir engu þótt tilfinningar séu særðar og sóma ofboðið. Og pistill Sifjar er um Hildi Lilliendahl, venjulega reykvíska konu sem lætur ekki ganga yfir sig heldur svarar fyrir sig með jafnrétti og heiðarleika að leiðarljósi. En þegar ég á að rökstyðja af hverju mér finnst Hildur vel komin að titlinum hetja ársins - að öðrum hæfum ólöstuðum vitaskuld - er það dálítið vandasamt.
Ég þekki Hildi ekkert nema í gegnum vefmiðla, hef aldrei hitt hana og veit ekkert hvernig hún er á heimili eða í vinnu. En hún virðist réttsýn og í jafnvægi, full af baráttuþreki og samt með húmorinn í lagi og í Kastljósi kvöldsins kom hún mér fyrir sjónir eins og manneskja með fæturna á jörðinni. Ég veit það ekki, kannski er þetta varla rökstuðningur af því að ég þekki hana bara úr fjarlægð en dáist samt að því sem hún lætur sig varða og hvernig hún gerir það.
Mér finnst það sannarlega ekki um allt fólk sem er áberandi í þjóðlífinu en læt mér samt ekki detta í hug að skíta það út, síst af öllu með dylgjum og fúkyrðum - og síst af öllu á netinu sem geymir allt og er vitnisburður um manns innri mann.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.