Tekur kirkjan of langan matartíma?

Ekki amast ég við góðverkum, göfugri hugsun eða örlæti. Ég fetti ekki einu sinni fingur út í markaðssetningu eða ímyndarherferð. Það er ekki nóg að hlutirnir séu réttir, þeir verða líka að líta út fyrir það. Góður og agaður launamaður getur „þurft“ að taka tvöfaldan matartíma stöku sinnum á móti þeim skiptum sem hann hefur ekki komist í mat og þá reynir hann að gera það þegar vel stendur á fyrir báða aðila. Sá sem verður þessa eina matartíma var sem er langur gæti ranglega haldið að framkoman væri gagnrýnisverð.

Ég fylgist ekki nógu mikið með kirkjunni til að meta matartímana hennar. Ég þekki (auðvitað) til presta sem eru áhugasamir, fullir af náungakærleik, vaktir og sofnir yfir sóknarbörnunum, ýta öllu frá sér til að sinna starfinu/kölluninni. Já, þá getur það bitnað á einhverjum öðrum, t.d. fjölskyldulífinu ef heimilið er undirlagt heilu sunnudagana af syrgjendum, hinum leiðu. Þetta þekkja flestir foreldrar, þessa togstreitu milli einkalífs og starfslífs.

Ég hef haldið að kirkjan væri stofnun, m.a.s. ríkisstofnun á fjárlögum án þess að hafa gaumgæft þau. Ég setti þjóðk í leitarorð í nýju lögunum og fann þetta:

7.4 Að semja um afhendingu kirkjulóða og kirkjugarða á ríkisjörðum til þjóðkirkjunnar. (bls. 12)

Undir innanríkisráðuneyti er þetta:

06-701 Þjóðkirkja

Þar má skilja að almennur rekstur á biskupi Íslands sé upp á 1.676 milljónir en vegna sértekna sé kostnaður ríkissjóðs 1.439 milljónir.

Aðeins neðar er liðurinn:

06-735 Sóknargjöld

Og neðst í honum:

Greitt úr ríkissjóði . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .  . . . . 1.994,0

Liðurinn 06-736 Jöfnunarsjóður sókna fær 310,8 milljónir.

Á bls. 174 er séryfirlit um hagræna skiptingu gjalda í A-hluta 2013 og þar er liðurinn

Framlag til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga .......................................... 2.545,0

Mér finnst mér töluverð vorkunn þótt ég hafi haldið að kirkjan væri á forræði ríkisins. Og nú væri vel þegið að rannsóknarblaðamenn, eða bara blaðamenn, færu á stúfana og kæmust að því, fyrir mig, af hverju kirkjan á svo margar og stórar jarðir, m.a. skilst mér Garðabæ og Seltjarnarnes, af hverju gerður var eilífur samningur árið 1996 um að ríkið hafi afnot af kirkjujörðum en greiði í staðinn laun presta, af hverju ríkið innheimtir sóknargjöld (eins og hver annar banki), heldur 20% eftir og skilar kirkjunni bara 80%. Eða leiðrétti mig hafi ég tekið skakkt eftir eða fengið rangar upplýsingar úr nærumhverfi mínu.

Ég ber ekki traust til kirkjunnar sem stofnunar þótt ég viti um margt gott fólk innan vébanda hennar. Það kemur mér fyrir sjónir sem skinhelgi þegar hún ætlar að safna fyrir Landspítalann - nema hún skeri verulega niður eigin útgjöld og láti það fé af hendi rakna til þess sama Landspítala.

Næst reikna ég með að kirkjan safni fyrir Rauða krossinn nema Rauði krossinn safni kannski fyrir þjóðkirkjuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband