Sunnudagur, 20. janúar 2013
Lífið er tilgangslaust (í eðli sínu)
Við fæðumst og við deyjum, það er segin saga. Þar á milli er tími sem við getum varið að vild. Að minnsta kosti höfum við eitthvert val um stefnu og strauma í eigin lífi. Nám, vinna, fjölskylda, frí, metnaður, átök, álag, markmið, fréttaflutningur, fréttamat.
Jaríjarí hjá mér núna, heimspeki, geimspeki.
Undir helgi náði Vilborg Arna Gissurardóttir merkilegu markmiði sínu með þrautseigju og góðan undirbúning í vopnabúrinu. Jákvæðni, áræðni og hugrekki eru gildin sem hún hefur valið sér. Hún ögrar sér og virðist vita hvað hún vill. Ég get ekki betur séð en að hún hafi þegar haft áhrif á aðra sem vilja taka sér dugnað hennar og einurð til fyrirmyndar.
Það þarf ekki að vera tveggja mánaða ganga á ísbreiðu. Ekki einu sinni eitt fjall. Við gætum sennilega öll byrjað á því að vera aðeins jákvæðari, bjartsýnni, upplitsdjarfari, kannski vinnusamari (þá meina ég ekki að vera lengur í vinnunni alla daga), óhræddari við nýjungar, samvinnufúsari, gjafmildari - lífið er í eðli sínu tilgangslaust þannig að við ættum sennilega að hafa gaman af því og reyna að vera sæmilega skikkanlegar manneskjur.
Og RÚV lét undir höfuð leggjast að segja frá þessu ótrúlega afreki hennar Vilborgar á föstudaginn. Það er fréttamat sem ég skil ekki en til að taka jákvæða pólinn í hæðina verð ég að lýsa yfir skilningi á því að VAG hafi ekki passað inn í 22 mínúturnar sem fréttastjórinn Óðinn Jónsson, vaktstjórinn Ingólfur Bjarni Sigfússon, útsendingastjórinn Ragnar Santos og tæknistjórinn Sæmundur Sigurðsson höfðu til ráðstöfunar ...
Stuð sé með oss.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.