Þöggun í samfélaginu

Samkvæmt upplýsingum frá kynferðisbrotadeild lögreglunnar hefur brotamálum rignt yfir deildina síðustu vikurnar. Og nú ríður á að menn bregðist rétt við. Ekki veit ég hvernig á að gera það en alveg áreiðanlega er það ekki með því að þegja málin í hel og ekki heldur með því að fjargviðrast of mikið.

Ég held að þetta sé spurning um forvarnir og upplýsingagjöf.

En það er ekki eins og það sé eitthvað einfalt. Ekki má hræða börn og unglinga frá því að umgangast allt fólk. Fjölskylduvinir geta líka verið háskalegir, það kemur á daginn aftur og aftur. Væntanlega verður aldrei hægt að komast fyrir svona brot með öllu. Fleiri starfsmenn en færri þar sem börn eru samankomin gætu samt verið góð byrjun. Eða hvað?

Annars rifjaðist upp fyrir mér í gær að þegar DV-forsíðan um ísfirska kennarann birtist, var það ekki 2005, var hálfþrítugur karlmaður sem ég þekkti á þeim tíma svo hneykslaður á DV (eins og ég fleiri, ég veit) að hann neitaði að lesa blaðið. Af þessari ástæðu einni saman. Og hann vildi forða öðrum frá blaðinu. Ég þakka þó mínum sæla fyrir að ég fordæmdi ekki boðbera illra tíðinda.

Og nú er ég að velta fyrir mér hvort það fólk sem bregst illa við tíðindunum, ekki atburðanna vegna heldur fréttanna af þeim, sé annars konar en það fólk sem verður sorgmætt yfir miskunnarleysi mannanna. Sjálf er ég svolítið meðvirk, þegar ég sé vesalinga teymda inn í lögreglubíla vorkenni ég þeim fyrir að vera vesalingar og aumingjalegar og held að brotaviljinn sé ekki einbeittur.

Já, og ég velti enn fyrir mér hvort við þyrftum ekki öll að vera aðeins meira vakandi fyrir sjúkdómseinkennunum og táknunum. Erum við ekki fullmeðvirk og jafnvel aðeins of löt til að sjá það sem gerist í kringum okkur? Og þá er ég ekki bara að tala um okkur Íslendinga ... Hvað voru Bretar að hugsa? Já, af hverju segir fólk ekki frá?

Þegjum aðeins minna um það sem skiptir máli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband