Hafði Davíð rétt fyrir sér?

Ég las aldrei yfir mig um Icesave. Ég fylgdist ekki nógu vel með frá degi til dags til að fá ógeð á umræðunni. Og nú er henni líklega allri lokið, eða verður það þegar menn hafa hælst nógu mikið um.

Dómurinn í dag er vissulega ippon. Við Frónverjar hljótum öll að fagna henni. Ég geri það. En ég er mér samt meðvituð um að ég vissi aldrei nóg. Hver var gerandinn og hver þolandinn? Hvert var fórnarlambið? Voru Bretar og Hollendingar gráðugir? Voru boðnir vextir í London frámunalega háir? Voru það óreiðupésar einir saman sem lögðu fé inn á Icesave-reikninga?

Sigurjón Árnason og Björgólfur Björgólfsson kættust í dag, að vonum. Þýðir það að fullt af fólki hafði þá fyrir rangri sök? Voru þeir alltaf bara góðu gæjarnir í eðlilegum viðskiptum? Er til peningahimnaríki? Fór framliðna féð þangað og beið eftir að gírugu útlendingarnir kæmu að sækja það?

Ég leit inn á vefútgáfu Guardians og sá meðal annars þetta:

"We have decided that we are not going to pay the foreign debts of reckless people," David Oddsson, then head of Iceland's central bank, told Iceland in a televised address.

Ég man eftir þessu Kastljósi þegar þáverandi seðlabankastjóri var á því að útlendingar fylgdust ekki með íslenskum spjallþáttum.

Ég fagna, já, en ég hef samt samúð með innstæðueigendum sem voru í góðri trú og töpuðu, sumir, miklu af ævisparnaðinum. Ég tek undir með Skúla Magnússyni, við getum ekki júbilerað eins og um vel heppnaðan handboltaleik væri að ræða.

Við viljum áfram vera siðuð þjóð meðal siðaðra þjóða. Er orðsporið óskaddað? Erum við hvítskúraðir englar og svömlum um í himnaríki fjárfestanna? Erum við bráðum laus við gjaldeyrishöftin? Njótum við trausts vandalausra?

Hafði Davíð rétt fyrir sér? Erum við skuldlaus og kvitt við alla dauðlega menn? Er allt hinum að kenna?

- Ég held að Icesave-umræðan sé ekki alveg búin. Þegar til stykkisins kemur snýst hún ekki bara um aura og sent.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þó að Davíð hafi sagt þetta um skuldir óreiðumanna,að þá má ekki gleyma því að það voru Halldór og þessi sami Davíð er gáfu þeim bankann,og fleirrum var gefin banki af þessum herramönnum sem einnig komu okkur á lista hina viljugu þjóða til stuðnings innrásinni í Írak. Já þetta eru ´´heiðursmenn´´.

Ekki má heldur gleyma því að þetta  ICESAVE  hefði aldrei komið til nema fyrir tilstuðlan Björgólfsfeðganna,og hinna bankastjóra Landsbankans,og Davíð svaf og svaf.

Númi (IP-tala skráð) 29.1.2013 kl. 01:10

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Nefnilega, Númi. Ég er ekki búin að gleyma því og velti fyrir mér hvort þessi húrrahróp feli í sér aflát fyrir þann gjörning allan. Þetta þýðir nefnilega ekki sérstaklega sigur yfir Gordon Brown eða Alistair Darling. - Og hvað verður núna gert með innstæðutryggingar? Og ríkisábyrgðir? EES? ESB? Umræðunni er ekki lokið ...

Berglind Steinsdóttir, 29.1.2013 kl. 07:12

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Hvað gerði Davíð Oddsson þegar hann jós hverjum hundruði milljörðunum úr sjóðum Seðlabankans í botnlausa hít bankanna rétt áður en hrunið kom til? Var hann ekki að ráðstafa Gjaldeyrisvarasjóðnum í þágu braskaranna?

Sennilega er Davíð ásamt Ólafi Ragnari dýrustu stjórnmálamenn sögu Íslands.

Guðjón Sigþór Jensson, 29.1.2013 kl. 12:10

4 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Já, Guðjón, ég man það líka. Og mig minnir að í alfyrsta samningnum í desember 2008 hafi verið 6,7% vextir og endurgreiðsla á mun styttri tíma en síðari samningar sem voru felldir. Og eru ekki einhverjir sem tapa á dómnum? Breskir og hollenskir skattgreiðendur?

Berglind Steinsdóttir, 29.1.2013 kl. 18:29

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Fyrsti Icesave samningurinn var undirritaður 11.10.2008 eins og kom fram í RÚV í gær. Kíktu á blogg Björgvins Guðmundssonar eins af sjóaðri viðskiptafræðingum Íslendinga: Ice save: Tafirnar hafa kostað þjóðarbúið mikið

Slóðin er: http://gudmundsson.blog.is

Uppgötvaði að því að hann komst að svipaðri niðurstöðu og eg.

Ætlarðu á ráðstefnu SAF n.k. föstudagsmorgun?

Bestu kv.

Guðjón Sigþór Jensson, 29.1.2013 kl. 21:51

6 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Takk, Guðjón, fyrir að benda mér á ráðstefnuna. Ég ætla að mæta og hlakka til.

Berglind Steinsdóttir, 30.1.2013 kl. 15:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband