Mánudagur, 4. febrúar 2013
Ætlaður glæpur
Ef lög væru óvefengjanleg þyrftum við hvorki lögfræðinga né dómstóla. Lög eru hins vegar túlkanleg - og túlkuð, þess vegna þarf stundum að skjóta álitamálum til dómstóla. Þrátt fyrir íslensk lög og Evrópulög voru menn til dæmis ekki vissir um hvernig Icesave færi á mánudaginn var. Mér heyrast flestir hafa orðið hissa á fullnaðarsigri okkar. Sem var ánægjulegur, auðvitað.
Þar af leiðandi er auðsagt að lög eru ekki hafin yfir vafa, lög eru bókstafur sem þarf að túlka. Ef lagabókstafurinn væri einn og sannur væru aldrei sérálit. Það þarf sem sagt ekki að fara fleiri orðum um það að lög eru mannanna verk, ekki sending frá guði eða öðrum annars heims.
Þess vegna gekk fram af mér þegar ég hlustaði á lögmann á Bylgjunni í morgun tala um hæstaréttardóm sem var felldur fyrir helgi. Hann er á vef Hæstaréttar.
Það sem helst hefur farið fyrir brjóstið á okkur, pöbulnum, er um það bil þetta:
Á hinn bóginn voru þau A, EV, J og Ó sýknuð af ákæru um kynferðisbrot þar sem háttsemi þeirra hefði haft þann tilgang einan að meiða A.
Margt hefur verið skrafað um dóminn og þar sem ég er hallari undir efnisleg rök en tilfinningaleg ætla ég að reyna að einbeita mér að einu í minni spekúlasjón. Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson skyggnast inn í hug gerenda, túlka hann og hljóta þar af leiðandi að láta lagabókstafinn lönd og leið. Lög eru túlkuð, ég segi það einu sinni enn.
... því næst ráðist á brotaþola meðal annars með því að sparka í höfuð hennar, skera í fingur hennar með hnífi og slá hana með leðurkylfu, svo og með því að ákærði Elías Valdimar, sem hulið hafði andlit sitt, hafi stungið fingrum upp í endaþarm og leggöng brotaþola og klemmt þar á milli ...
Æ, hann ætlaði bara að meiða hana.
Fram er komið að þessi háttsemi þeirra hafði þann tilgang að meiða brotaþola og þegar litið er til atvika málsins telst hún ekki til samræðis eða annarra kynferðismaka ...
Einn gerandi fær samt fimm og hálft ár í fangelsi, hinir þrír fá fjögur ár.
Ingibjörg Benediktsdóttir var með sérálit (af því að dómar segja sig ekki sjálfir):
Með lögum nr. 40/1992 og nr. 61/2007 var ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga um kynferðisbrot breytt þar sem gildandi lög um þau brot þóttu ekki veita þolendum brota nægilega réttarvernd. Var áhersla lögð á að tryggja friðhelgi, sjálfsákvörðunarrétt, kynfrelsi og athafnafrelsi brotaþola. Markmiðið var meðal annars að færa reglurnar til nútímalegs horfs og auka vernd barna og kvenna gegn kynferðisbrotum.
Og þá er ég komin hring því að ég hlustaði sem sagt á lögmanninn í útvarpinu í morgun. Honum fannst dómur karlanna eðlilegur af því að, þið vitið, gaurinn ætlaði bara að meiða fórnarlambið. (Sá sem rænir banka og fótbrýtur einhvern óvart í leiðinni ætti með sömu rökum bara að fá dóm fyrir auðgunarbrot ef hann næst. Og ef hann hafði byssu til að skjóta í viftuna en hitti óvart manneskju og varð að aldurtila - hann ætlaði bara að komast undan.) Tilgangur brotamannsins ræður túlkun dómaranna, ég get ekki skilið lögmanninn öðruvísi. Dómurinn snýst um gerandann af því að það er verið að dæma hann.
Svo spurði Kolla hvort lögmanninum þætti ástæða til að breyta lögunum.
Nei, það fannst honum ekki. Það er vegna þess að hann tekur afstöðu með brotamanninum. Held ég. Hann segir að það sé verið að gera veður út af engu. Ég skil lögmanninn svo að honum finnist mótmælendur sýna ofstæki. (Ég held að túlkun mín sé rétt hér.)
En er ekki nauðgun alltaf ofbeldisbrot?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.