Mánudagur, 18. febrúar 2013
Málfræði: ekki vera nísk á essin
Um daginn tók ég vel eftir að nokkrir Íslendingar segja skýrt og greinilega að eitthvað sé ATHYGLIVERT, ekki endilega allrar athygli vert, bara: Mér þykir það athyglivert. Það er auðvitað rökrétt, athygli er kvenkynsorð og tekur ekki s í eignarfalli.
Vandinn er bara að tungumálið er ekki alls staðar og alltaf rökrétt. Við tölum ekki um skipsstjóra, heimsspeki, dagsskrár eða eldhússbréf. Við tölum um fiskafla en botnfisksafla. Og bolfisksafla sem er sko ekki það sama, hehe.
Og það er algengara og hefðbundara að tala um að eitthvað sé athyglisvert. Þess vegna finnst mér tilgerðarlegt að heyra fólk segja athyglivert og kveða skýrt að. Það sama fólk segir nefnilega ekki hæðnilega, stríðnilega, samkeppniforskot, landhelgigæsla eða móðursýkihlátur.
Það eru örugglega fleiri skemmtileg orðadæmi sem ég man ekki eftir núna - en ég hvet alla til að vanda orðfæri sitt, tala rétt og fagurt mál og sletta ekki nema þeir viti hvernig þeir geta sagt það sama á íslensku.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.