Þriðjudagur, 19. febrúar 2013
Þjónustusamningur milli Strætós og borgarinnar
Það er auðvitað að bera í bakkafullan lækinn að rifja upp strætósögu gærdagsins. Væntanlega eru flestir sammála um að bílstjórinn hafi farið offari þegar hann vísaði smábörnum úr vagninum, smábörnum sem höfðu augljóslega farið í hina áttina á útrunnu strætókorti sem byggir á samningi milli leikskóla/ grunnskóla og borgarinnar. Hafi ég ekki tekið svakalega skakkt eftir var einmitt ferðalagið utan háannar sem er fyrst á morgnana og svo síðdegis þannig að það eru engin þrengslarök gegn því að nýta ferðina.
En jafnvel þótt kortið hafi verið útrunnið er samningurinn þekktur. Vissi bílstjórinn ekki af alhliða og almennu samkomulagi?
Þetta komst til tals í nærumhverfi mínu í dag og ég heyrði nokkrar svæsnar sögur af bílstjórum sem loka á unglinga og bera við að þeir megi ekki vera að neinu drolli. Ég rifjaði líka upp þegar ég fór daglega með strætó og bílstjórinn beið stöku sinnum eftir mér þegar hann vissi að ég kæmi en var alveg á síðustu stundum (og hann kannski aðeins með fyrra fallinu) þannig að menn eru misjafnir í þessari stétt eins og öðrum.
En svo er það framkvæmdastjórinn ...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.