Réttur barna til samvista við bæði foreldrin

Tölfræði forræðislausra foreldra og hlunnfarinna barna þvælist dálítið fyrir mér en flestir hljóta að fallast á að mörg börn eiga fráskilin foreldri (reyni hér meðvitað að halda kynhlutleysi orðsins). Sem betur fer eru móðir og faðir oft bæði ábyrg og hugsa um hag barnsins. Þannig býr barn iðulega á heimili beggja viku og viku í senn. En nú les ég í leiðara Ólafs Stephensen að löggjöfin hafi ekki náð að halda í við það.

Samkvæmt barnalögum frá 2003 er líka tilfellið að barn getur aðeins átt lögheimili hjá öðru foreldri:

Þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns skulu þeir taka sameiginlega allar meiri háttar ákvarðanir sem varða barn. Ef foreldrar búa ekki saman hefur það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. Foreldrar sem fara saman með forsjá barns skulu þó ávallt leitast við að hafa samráð áður en þessum málefnum barns er ráðið til lykta.

Þetta er ósanngjarnt gagnvart því foreldri sem barnið á ekki lögheimili hjá. Ætlaði ekki einhver að breyta þessu?

Snýst þetta kannski um að þjóðskrá á ekki fleiri reiti? Leyfir ekki tæknin tvö heimilisföng eins og virðist eiga við um löng eiginnöfn fólks?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er einmitt mjög skrýtið. Við hefðum þurft á þessu halda með okkar ungling en það var ekki hægt. Hann var annaðhvort að vera með lögheimili hjá okkur eða móður sinni, gat ekki haft það á báðum stöðum þótt hann byggi á báðum stöðum, stundum nokkuð jafnt. Við hefðum mjög auðveldlega getað sett fram áætlun, hvenær hann byggi hjá okkur og hvenær hjá mömmu sinni. Við töluðum oft um það líka að ef hann er skráður hjá okkur (pabba hans og mér) missir mamma hans ýmis réttindi (t.d. leiguafslátt) þótt hún verði að gera ráð fyrir honum þegar hún leigir húsnæði og þarf því að leigja stærra en hún þyrfti ef hún væri ein. Á sama hátt missum við barnabætur ef hann er ekki skráður hjá okkur þótt hann búi hjá okkur meirihluta ársins. Mjög furðulegt kerfi sem var alls ekkert risavandamál hjá okkur en ollu ýmsum minniháttar vandræðum. En umræðan er hafin svo kannski fer eitthvað að gerast í þessum málum.

Ásgerður (IP-tala skráð) 20.3.2013 kl. 22:16

2 identicon

Það er undarlegt að við fullorðna fólkið skulum ekki sjá í hendi okkar að þegar öll kurl koma til grafar og börn til fullorðinsára þá er þetta fyrirkomulag að eiga 2 heimili,ekki alveg að ganga upp. Nú er svo komið að þeirri kynslóð sem er að alast upp í dag, tilheyrir stór hópur fólks sem þarf að deila lífi sínu á tveimur heimilum. Myndi ég vilja búa á fleiri stöðum en einum ? En þú ? Hvernig munu þessir krakkar upplifa fullorðinsárin? Verður þá til hópur sem vill eiga tvö heimili allt sitt líf? E.t.v.2 maka? Tökum nú sem dæmi par sem tekur saman eftir skilnað, þau eiga 5 börn samtals: þau búa börnunum sínum 5,samtals 5 herbergi með öllum nútímabúnaði t.d. leikjatölvum og sjónvörpum osfrv. Börnin eru hjá þeim aðra vikuna og hinum fyrrverandi hina. Þar eru líka samtals 5 herbergi. Er skortur á húsnæði í þessu landi? Hverjir eru kostirnir við að "skipta" sér milli tveggja heimila? Þurfa samskipti blóðforeldra ekki að vera ansi góð og náin til að allt smelli saman í lífi barnsins? Maður spyr sig.

Dagbjört Óskarsdóttir (IP-tala skráð) 21.3.2013 kl. 01:26

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Já, Dabba, ég get alveg tekið undir að það er mikið lagt á börn að senda þau stöðugt á milli heimila en flestir fullorðnir velja að halda sitt eigið heimili. Samt veit ég um foreldra sem voru að hugsa um að skilja og þau skiptust á um að flytja út viku og viku svo börnin héldu rótfestunni, yrðu áfram í sama skóla og ættu áfram vinina sína. En það er varla raunhæft hjá nokkrum til lengdar.

En þegar barn er orðið skilnaðarbarn og á tvö heimili er varla betra fyrir það að annað foreldrið „eigi“ það meira en hitt foreldrið, fái greitt með því og fari jafnvel í hart með tilheyrandi óróleika. Er ekki best að bæði faðir og móðir kaupi jafnharðan það sem barnið vantar og reyni að lifa í sátt og samlyndi, þótt aðskilin séu?

Berglind Steinsdóttir, 21.3.2013 kl. 22:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband