Föstudagur, 19. apríl 2013
Hver sigrar?
Ég fór á fyrirlestur í hádeginu þar sem fyrirlesari skoðaði fortíð, staldraði við nútíð og skyggndist lítillega inn í framtíðina. Kosningarnar um næstu helgi voru auðvitað málið, skoðanakannanir og úrslitin, hver sem þau verða.
Guðni Th. rifjaði upp atbeina forseta að stjórnarmyndunum fyrr og síðar. Það er ekki endilega stærsti flokkurinn sem fær umboðið, ekki ef hann er minni en hann var eftir kosningarnar þar á undan, þannig að það er ekki einboðið að þingmannafjöldinn einn saman segi til um umboðið.
Og maður getur spurt: Hver er sigurvegarinn ef xB fær 17 þingmenn og xD 18? Er það hástökkvarinn eða fleytir atrennan formanninum í forsætisráðuneytið? Verður það kannski einhver kafteinn ef píratarnir fá 8,8% atkvæða?
Svo má líka spyrja hvort flokkarnir séu ekki hver um annan þveran búnir að setja no no á allt samstarf vegna fyrirframkrafna. Ég vil bara vinna með þeim sem vilja afnema verðtryggingu eða alls ekki ESB eða endilega ESB eða gjörbreyta sköttum eða hnika til sköttum eða umfram allt göng eða endilega Sundabraut. Eitthvað er þetta fært í stílinn hjá mér.
Annars staðar á Norðurlöndunum ganga menn bundnir til kosninga og eru búnir að segja með hverjum þeir vilja vinna. Hér tala flestir um það með hverjum þeir ætla ALLS EKKI að vinna.
Verður stjórnarkreppa 28. apríl?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.