Mánudagur, 22. apríl 2013
Sjómannaafsláttur?
Í kosningaþætti Rásar 2 í Suðvesturkjördæmi var áðan spurt um sjómannaafslátt. Flestir frambjóðendur vilja hann ekki. Ég vil heldur ekki sjómannaafslátt (hvurs lags orðskrípi er þetta líka eiginlega?), ekki frekar en leiðsögumannaafslátt. Hins vegar er eðlilegt að launþegar - eins og sjómenn, vegagerðarmenn og leiðsögumenn - sem eru löngum stundum að heiman og hafa í raun ekki forræði yfir frítíma sínum fái dagpeninga.
Ekki satt?
Athugasemdir
Dagpeningar eru alla jafna til þess ætlaðir að "standa undir kostnaði launþegans vegna fjarveru frá heimili sínu, s.s. gisti- og fæðiskostnaði og öðrum tilfallandi kostnaði sem af ferðinni hlýst." Í tilviki sjómanna ættu dagpeningar því að vera fyrir fæði og húsnæði... en hvor tveggja er skaffað um borð er það ekki?
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 23.4.2013 kl. 11:54
Jú, fá þeir ekki bæði kost og káetu? En er ekki „annar tilfallandi kostnaður“ fljótandi? Mín vegna má kalla þetta staðaruppbót. Leiðsögumaður á ekki frítímann sinn í langferðum, það er margreynt.
Berglind Steinsdóttir, 23.4.2013 kl. 18:54
En sjómaðurinn á sinn frítíma um borð, og ef frítíminn breytist í vinnu þá fær hann það greitt.
Barátta leiðsögumanna um að skrá vinnu sem vinnu er allt annar handleggur, held ég.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 24.4.2013 kl. 10:31
Nei, ég meina að hvorki sjómaður né leiðsögumaður getur ráðstafað frítíma sínum að vild þegar hann er kyrrsettur á vinnustað. Getur ekki farið í bíó, ekki hitt vini, ekki sett í þvottavél, ekki breitt yfir börnin sín, þarf að hringja dýrari símtöl, getur ekki farið til tannlæknis eða í klippingu - á ekki frítíma sinn. Þar við bætist stundum sú kvöð að vinna í frítíma sínum. Mér finnst það ekki skipta máli að vinnan sé skemmtileg og gefandi.
Berglind Steinsdóttir, 24.4.2013 kl. 19:43
Hér er smá misskilningur.
Sjómenn á fiskiskipum fá ekki frítt fæði um borð, þeir borga það sjálfir. Ég held að það væru fáir, sem myndu sætta sig við að fá ,,káetu" í sinni vinnu. Deila smá rými með öðrum, engin snyrting í káetunni, og ekkert prívat. Þannig er veruleikinn hjá flestum sjómönnum, þótt að sem betur fer séu undantekningar á´því á nýrri og stærri skipum.
Hvorki Sjómenn, né leiðsögumenn ráða sínum frítíma, (sjá Berglindi hér að ofan).
Enginn fær ,,frítt" fæði og húsnæði, það er allt saman hluti af kjarasamningum, og jafnvel lögum um vinnuvernd í mörgum tilfellum.
Í samningum leiðsögumanna er ákvæði um fæði og húsnæði. Þar er kveðið á, um að um það skuli samið fyrir hverja ferð, fyrirfram, og opnað er fyrir möguleika á dagpeningum.
Einnig er ákvæði um að ef gisting í ,,hótelferðum" er lakari en almennt gerist, skal greiða dagpeninga. Þar er einnig getið um, að ef ekki er ,,fullt fæði" í ferðum, ber að semja um dagpeninga eða aðrar greiðslur fyrir.
Að sjálfsögðu fær leiðsögumaður greitt fyrir alla sína vinnu, það er bundið í lögum.
Hinsvegar fá sjómenn ekki alltaf greitt fyrir sína vinnu, enda með meiri vinnuskyldu en nokkur önnur stétt landsins, eða allt að 24 tíma á sólarhring, án aukagreiðslu, ef þarf. Það er í sjómannalögum, og ég held ekki að nokkurt verkalýðsfélag vilji taka sér kjarasamninga sjómanna og lög um sjómenn sem fyrirmynd.
Börkur Hrólfsson, 24.4.2013 kl. 21:09
Já, af hverju standa sjómenn ekki saman?
Berglind Steinsdóttir, 25.4.2013 kl. 10:55
Sjómenn standa nokkuð vel saman. En það er við öflugann andstæðing að etja, löggjafann. Það eru sérstök lög um sjómennsku, og þau eru helst á bandi skipaeigenda, en ekki mannskapnum.
Og í atvinnugrein, þar sem hefur orðið gríðarleg fækkun á síðustu áratugum, er slegist um hvert pláss, og hræðslan við atvinnuleysi er ekki mjög hvetjandi til kjarabaráttu. Þar fyrir utan eru gjarnan sett lög á sjómenn, ef þeir voga sér að reyna að beita hörðu.
Það er annað með Leisögumenn, þar sem gríðarleg fjölgun hefur átt sér stað, en leiðsögumenn hafa algjörlega látið þau tækifæri sem þeir hafa fengið, renna sér úr greipum. Í síðustu kjarasamningum vogaði einn samninganefndarmaður (ég) sér að nefna verkfallshótun. Þá sagði formaður samninganefndarinnar (og félagsins), í áheyrn samninganefndar vinnuveitenda: ,,Og hvar ætlarðu að finna leiðsögumenn til að fara í verkfall" ? ,,Það verður aldrei, til þess vantar alla samstöðu" ! Það er erfitt að vera í kjarabaráttu með þessu hugarfari.
Börkur Hrólfsson, 25.4.2013 kl. 17:45
Þetta er núna breytt, Börkur. Verkfall kemur til greina, við erum sammála um það.
Berglind Steinsdóttir, 25.4.2013 kl. 18:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.