Föstudagur, 10. maí 2013
Stormur í hvítvínsglasi
Þótt mér sé sjálfri alveg sama hvort áfengi fáist í matvöruverslunum eða ekki og að ÁTVR hafi lokað á sunnudögum finnst mér allt í lagi að einhverjir lýsi yfir vilja sínum til annars. Það útilokar ekki fólk í að beita sér fyrir öðru. Það þýðir ekki endilega að menn hafi ekki áhyggjur af skuldastöðu heimilanna. Fólk múltítaskar.
Dálítið minnir umræða dagsins mig á viðbrögðin við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur fyrir rúmum fimm árum, 5. desember 2007, þegar hún spurði í fyrirspurnatíma á Alþingi um þá hefð að klæða nýfædd stúlkubörn í bleikt og drengi í blátt. Í minningu minni ærðist samfélagið og menn töluðu eins og ekkert væri gert af viti á þessum vinnustað og allra síst væri téður þingmaður líkleg til þess.
Mönnum yfirsáust fjölmörg mál þingmannsins á því ári. Eigum við ekki að anda með nefinu og fá okkur vatnsglas?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.